138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki heyrt það hjá stjórnarandstöðunni, alla vega ekki almennt hjá hv. þingmönnum, að þeir vilji sjá ríkisstjórnina fara frá vegna þess að flestum mun vera eins innan brjósts og mér að það er ekki á bætandi á efnahagslega óreiðu að hér komi pólitísk óreiða líka. Það er ekki stjórnarandstaðan sem beinlínis ógnar ríkisstjórninni og alls ekki út af þessu máli, því hefur verið lýst yfir. Það er stjórnin sjálf, þ.e. verkstjórinn, sem hótar ríkisstjórninni að ef menn ekki gangi í takt í þessu máli skuli þeir hafa verra af. Þá brestur hin fyrsta vinstri velferðarstjórn sem tilraun var gerð til að koma á á Íslandi. Það er þetta sem heldur vinstri grænum í takti og alveg sérstaklega núna í þessari síðari atrennu.

En það er annað sem ég held að sé miklu alvarlegra. Milljarður er nokkurn veginn sama og milljón sem er nokkurn veginn sama og belja. Menn gera sér ekki grein fyrir því hvers lags óskaplegar upphæðir menn eru að ræða. Þúsund milljarðar, sem gæti verið niðurstaðan úr þessu samkomulagi ef illa fer, eru 3 milljónir á hvert einasta mannsbarn, litlu börnin líka. Það eru þá 12 milljónir á fjögurra manna fjölskyldu. Við erum að tala um þvílíkar upphæðir að það er ofvaxið skilningi flestra að átta sig á því. Þetta er kannski vandinn. Menn telja núna að þeir geti hreinlega stungið hausnum í sandinn og marserað í takt og skilið þetta eftir á bak við sig og gleymt þessu næstu sjö árin, þetta sé ekkert voðalegt.