138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið búið að spyrja um vinnutilhögun þingsins og maður er forvitinn að vita frá þeim aðilum sem stýra þessu, þ.e. hinni norrænu velferðarstjórn, hvort stefnan sé að virða reglur um lágmarkshvíld, um hámarksvinnutíma sem er 11 klukkustundir, sem náðist nú ekki í gær, eða hvort menn ætli a.m.k. setja sér það mark að virða vökulögin en það var eitt það fyrsta sem náðist í gegn í skipulegri verkalýðsbaráttu, þegar sjómenn náðu því í gegn að fá í það minnsta sex tíma hvíld.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem við ættum alls ekki að vera að ræða. Það er nefnilega þannig, ef það hefur farið fram hjá einhverjum og þá sérstaklega forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, að við gengum frá þessu máli í sumar. Í sumar gekk Alþingi Íslendinga frá lögum sem vörðuðu ríkisábyrgð á Icesave, þá var gengið frá þessu máli, virðulegi forseti. Aðdragandinn var sá eins og við þekkjum að núverandi ríkisstjórn skrifaði í júní undir samkomulag um Icesave við Breta og Hollendinga. Ég vil taka það fram að mér finnst of mikið hafa verið gert úr því að leggja það upp hvernig samninganefndin stóð sig, það er algerlega ljóst að þetta eru mjög slæmir samningar fyrir Íslands hönd, en aðalatriði máls er að það var ríkisstjórnin sem tók ábyrgð á því og tók ákvörðun um það, það var ekki einhver samninganefnd úti í bæ.

Hvað sem því líður, virðulegi forseti, í júnímánuði þegar þetta var kynnt, vildi ríkisstjórnin keyra málið í gegn með miklum hraða og án þess, virðulegi forseti, að þingmenn fengju að sjá samkomulagi, vildi að gengið yrði frá ríkisábyrgð án þess að þingmenn fengju að sjá samkomulagið. Nú er alveg sama hvernig menn reyna að tala sig út úr því, ég var í viðskiptanefnd þegar þetta var kynnt, þegar forustumenn á vegum ríkisstjórnarinnar komu og kynntu málið, og við spurðum sérstaklega að því hvenær við fengjum að sjá samkomulagið. Svarið var skýrt, við áttum ekki að fá það heldur þvert á móti, í besta falli, þegar gengið var eftir því, átti Ríkisendurskoðun að fá að skoða samkomulagið og túlka það fyrir þingmenn. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli að þessu sé til haga haldið. Sömuleiðis að það voru ekki þingmenn sem fengu að sjá þetta fyrst, sem áttu að fjalla um þetta og taka ákvörðun út frá þessu samkomulagi, þetta fór fyrst á veraldarvefinn og í kjölfarið var samningurinn sendur til þingmanna. Gott og vel.

Við vorum, a.m.k. velflestir þingmenn, að vinna í þessu dag og nótt í allt sumar. Einstaka menn voru annars staðar en látum það liggja á milli hluta. Þegar búið var að því og ganga frá lögum frá Alþingi um fyrirvara við ríkisábyrgðina, hvað segja þá forustumenn ríkisstjórnarinnar? Þeir upplýsa okkur um það að þetta sé allt innan ramma samkomulagsins. Ég spyr, virðulegi forseti, af hverju erum við þá að ræða þetta núna? Hvers vegna er það? (ÓN: Skapandi hugsun?)

Í alvöru, virðulegi forseti, þetta er gersamlega fráleitt. Alþingi Íslendinga sagði sitt, gekk frá þessu máli, gaf svör um þann samning sem ríkisstjórnin hafði gert, alveg skýrt. Reyndar var það svo að það var ekki einu sinni að ríkisstjórnin segði: Þetta verður erfitt. Þetta er ómögulegt. Þið setjið okkur í erfið mál. Nei, virðulegi forseti, og svo ég vísi beint í orð hæstv. forsætisráðherra af þessu tilefni, þá sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Það er ekki hægt, að mínu viti, að tala um að það sé verið að brjóta samninginn eða þarna sé um eitthvert samningsrof að ræða. Ég held að það sé alveg fullkomlega hægt að útskýra þetta fyrir þeim þannig að það sé hægt að ná sátt á milli þjóðarinnar í þessu efni, vegna þess líka að Bretar og Hollendingar hafa fyrst og fremst hagsmuni af því eins og Íslendingar að við getum staðið við okkar skuldbindingar, þess vegna kvíði ég því ekki að fara í samtal við þau.“ (ÓN: Hún fór ekki í nein samtöl.)

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal kallar hér fram í hið augljósa, hæstv. forsætisráðherra fór ekki í nein samtöl sem hún kveið bara alls ekkert að fara í. En aðalatriðið er þetta, hæstv. forsætisráðherra, forustumenn ríkisstjórnarinnar, að ég tali ekki um þá sem báru ábyrgð á þessu hér eða voru í forustu fyrir því í þinginu, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, töluðu öll um að þetta væri innan ramma samkomulagsins. Það var alls ekki þannig að menn settu þetta upp nákvæmlega eins og þingmenn vildu. Nei, nei, nei, menn sömdu um það við stjórnarliða í allt sumar hvað væri hægt að ganga langt og gengið var þannig frá málinu að stjórnarliðar töldu að þetta væri innan samkomulagsins. Og þeirri grundvallarspurningu hefur ekki verið svarað: Af hverju erum við að fjalla um málið aftur? Það eitt og sér? Menn hafa ekki komið með nein rök fyrir því og enginn hefur komið fram og beðist afsökunar, enginn hefur komið fram og sagt: Heyrðu, fyrirgefðu, við vorum bara algjörlega í tómu tjóni, þetta var ekkert innan ramma samkomulagsins. Það hefur aldrei verið tilkynnt að nýjar viðræður væru farnar af stað. (Gripið fram í.) Nei, virðulegi forseti, einhverra hluta vegna koma menn bara aftur fram með frumvarp eins og ekkert sé og spunameistarar ríkisstjórnarinnar segja: Þjóðin er búin að fá leið á þessu, keyrið þetta í gegn

Enn og aftur er öllu haldið leyndu, öllu. Ég er hér, virðulegi forseti, með bréf sem einhverra hluta vegna hafa ekki farið hátt. Það var nefnilega þannig að þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra kviði því ekki að fara í samræður, fór hæstv. forsætisráðherra ekki í samræður en sendi bréf á félaga sína, forsætisráðherrana í Hollandi og Bretlandi. Svöruðu þeir til baka? Eftir tvo og hálfan mánuð, virðulegi forseti, og þá svöruðu þeir báðir einhverra hluta vegna. Var það ekki með tveggja daga millibili sem svörin bárust? Hvað stendur í þessum bréfum? Það sem stendur í þessu bréfi frá Downingstræti 10 er að Gordon Brown, sjálfur Gordon Brown lýsir yfir stuðningi við íslensku ríkisstjórnina í þessu máli. Mér vitanlega, virðulegi forseti, er þetta eini stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem hefur fundist.

Hæstv. forsætisráðherra svarar til baka og segir að okkur beri engin skylda til að greiða þetta og biður vinsamlegast um það, og staðfestir það sem gagnrýnendur nýja frumvarpsins hafa haldið fram, að ef Íslendingar vinni málið — sem skiptir engu máli annað en að þá er búið að lofa teboði í Bretlandi og kaffiboði í Hollandi, að þetta verði allt mjög notalegt, þ.e. viðræðurnar í kjölfarið, biður svona kurteislega um það. En bréf hæstv. forsætisráðherra hefði betur verið með þeim hætti, ef það væri einhver reisn yfir ríkisstjórninni, að hæstv. forsætisráðherra útskýrði það fyrir forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, að svona komi menn ekki fram við íslenska þjóð. Og bara þetta bréf, virðulegi forseti, Gordons Brown, sem er niðurlægjandi fyrir Íslands, þar sem talað er niður til Íslendinga, var næg ástæða til að ríkisstjórnin ætti að sjá sóma sinn í því — þó svo að það hafi kannski ekki verið mikið af því í tengslum við þetta mál — að salta þetta mál og senda skýr skilaboð til hinna svokölluðu viðsemjenda okkar að svona látum við ekki koma fram við okkur.

Kjarni málsins er sá, og nú, virðulegi forseti, ætla ég að vitna í hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, því að hæstv. forsætisráðherra sagði í umræðu í þinginu eftirfarandi orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er ekki réttlátt að Íslendingar séu látnir gjalda fyrir gallaða löggjöf Evrópusambandsins. Það er ekki réttlátt að Bretar og Hollendingar hreinsi hendur sínar af því að þeirra eigið fjármálaeftirlit hafi brugðist, ekki síður en okkar, í Icesave-málinu og það er afar ósanngjarnt að þeir skuli torvelda samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við urðum fórnarlömb þess að allar þjóðir sem við eigum helst samskipti við, bæði austan hafs og vestan, töldu nauðsynlegt að verja gallaðar fjármálareglur til þess að forða áhlaupi á banka víða um heim.“

Í framhaldinu segir hæstv. forsætisráðherra: „Við stóðum ein og gerum það enn í Icesave-málinu.“

Hér segir hæstv. forsætisráðherra nokkra hluti. Í fyrsta lagi, sem er augljóst, að þetta sé tilskipun Evrópusambandsins að kenna. Virðulegi forseti. Það voru ekki Íslendingar sem skrifuðu þessa tilskipun. Það er ekki þannig. Sömuleiðis segir hæstv. forsætisráðherra að Íslendingar hafi verið beittir órétti af hálfu Breta og Hollendinga, og það sé lítil sanngirni í því. Og hæstv. forsætisráðherra segir að þessar þjóðir hafi verið að reyna að torvelda samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þessi hótun hefur hangið yfir og menn hafa látið liggja að og sagt hér beint, þ.e. stjórnarliðar, að við þurfum einhvern veginn að klára þetta mál, eins og það er orðað, til að fá fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Virðulegi forseti. Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur sagt mjög skýrt að þetta tengist ekki neitt. Það eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að við gætum hinkrað við og farið að sinna mikilvægari málum fyrir land og þjóð en þessu. Það er ekkert, það hefur engin röksemd komið fram af hálfu stjórnarliða sem réttlætir það að við séum að ræða þetta núna. Í fyrsta lagi gengum við frá þessu í sumar, við gerðum það, virðulegi forseti, og það var algjörlega skýrt hvernig Alþingi Íslendinga gekk frá þessu máli. Þá sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar — og einhver staðar hefðu menn þurft að segja af sér í kjölfarið ef þeir hefðu haft svona gríðarlega rangt fyrir sér — þeir sögðu: Þetta er í fínu lagi, við erum sátt við þetta vegna þess að þetta er algjörlega innan ramma samningsins sem við gerðum. Þetta sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar.

Síðan segja þeir og biðjast ekki einu sinni afsökunar á því að hafa haft rangt fyrir sér, heldur segja að það þurfi að klára þetta einhvern veginn vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni ekki gera neitt fyrr en við klárum þetta á forsendum Breta og Hollendinga. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sjálfur sagt að þetta sé ekki rétt.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að við erum að gera þetta? Mér þótti röksemdin sem í rauninni var sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri innheimtustofnun fyrir Evrópusambandið og Breta og Hollendinga, mér fannst það aldrei sterk rök, en nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að það sé ekki rétt. Hver eru þá rökin? Er það þannig, virðulegi forseti, eftir allan þennan tíma, alla þessa fundi, alla þessa vinnu, að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekkert vitað hvað þeir voru að gera? Af hverju komu þeir hér upp og lýstu yfir sérstakri ánægju með afgreiðslu þingsins? Af hverju gerðu þeir það? Og af hverju komu þeir hér upp og sögðu að þetta væri allt innan ramma samkomulagsins, þess vegna væru þeir svona ánægðir með þetta? Hvers vegna var það?

Virðulegi forseti. Þessum grundvallarspurningum hefur ekki verið svarað. Nú er enginn stjórnarliði í salnum og það er bara þannig, virðulegi forseti, svo við tölum um hlutina eins og þeir eru, að spunameistarar ríkisstjórnarflokkanna koma bara með ein skilaboð sem eru þau: Það eru allir búnir að fá leið á Icesave. Þeir eru ekki að reyna að réttlæta þetta, ekki að reyna að segja að þetta sé gott, ekki að þetta sé nauðsynlegt, ekki að þetta sé skynsamlegt, það eru bara ein skilaboð: Íslensk þjóð er búin að fá nóg af þessu og þess vegna eigum við að keyra þetta í gegn.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að tala um brúarsmíð eða bryggju eða hús, við erum að tala um skuldbindingar til áratuga og hugsanlega fram í alla næstu framtíð, ef hlutirnir fara á versta veg. Þingmenn úr flestum flokkum unnu samviskusamlega að því að reyna að lágmarka skaðann í sumar og gerðu það með fyrirvörum og afgreiddu málið þannig. Þeir fyrirvarar eru farnir út. Þrátt fyrir að forustumenn ríkisstjórnarinnar segðu að þetta væri innan ramma samkomulagsins, gengu þeir samt sem áður í það að breyta þessu og hafa aldrei útskýrt það og það hefur aldrei verið gengið almennilega eftir því af fjölmiðlum af hverju í ósköpunum þeir höfðu svona rangt fyrir sér þegar þetta var afgreitt í sumar.

Virðulegi forseti. Menn hljóta að fara að spyrja sig hvað hér sé í raun á ferðinni. Það læðist að manni sá grunur og á hverjum degi kemur eitthvað nýtt fram sem ýtir undir þá skoðun að þetta snúist bara um eitt, sem er innganga Íslands í Evrópusambandið. — Hér kemur inn hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sem hefur lýst því yfir úr ræðustól þingsins að þingmenn Breta og Hollendinga hafi sagt það við hana beint að ef við gerum ekki upp Icesave eins og þeir vilji, verði komið í veg fyrir inngönguaðild að Evrópusambandinu. (REÁ: Rétt.) Hv. þingmaður staðfestir það hér með frammíkalli. Við sjáum að Evrópuþingið er að samþykkja ályktun sem endar svona, með leyfi forseta. — Nú verð ég að biðja virðulegan forseta að sýna ákveðið umburðarlyndi meðan ég les þetta á frumtextanum og reyni svo að þýða þetta beint í kjölfarið. Ég lofa því, virðulegi forseti. En ástæðan fyrir því að ég segi þetta er að ég hef lent í nokkrum erfiðleikum hér í ræðustól þegar ég hef brugðið fyrir mig enskri tungu. En hér segir í lokin, virðulegi forseti, í þessari ályktun að Ísland muni geta orðið aðili að Evrópusambandinu „provided that it would fulfill all its obligations and the EEA-agreement“. Með öðrum orðum, uppfylli öll skilyrði EES-samningsins.

Virðulegi forseti. Við erum búin að vera í EES frá held ég 1994 eða 1995 og það hefur ekki verið vandamál, það hefur enginn kvartað undan því að við höfum ekki uppfyllt þau skilyrði. Og þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að hér sé verið að vísa til þess að túlkun Evrópusambandsins, túlkun Breta og Hollendinga á því sé að við borgum hverja einustu krónu út af þessari gölluðu tilskipun Evrópusambandsins, að það sé eitthvað sem við höfum undirgengist með EES-samningnum. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að hér sé um það að ræða, virðulegi forseti, að við fáum ekki inngöngu í Evrópusambandið nema við greiðum Icesave-reikninginn eins og Bretar og Hollendingar og Evrópusambandið senda okkur hann, að fullu. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo. Allt þetta mál verður ekki skilið öðruvísi en að þetta sé framhald af því að Samfylkingin er með þetta eina mál sem sitt stærsta mál og þeir hafi samið þannig við Vinstri græna að þeir þurfi að kyngja þessu sem hluta af því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Það getur því ekki verið nein önnur ástæða fyrir því að við séum að ræða þetta mál fram eftir kvöldi, það er algjörlega ljóst, og allir sem hér eru inni — sem eru ekkert allir, þeir eru mjög fáir og enginn stjórnarliði nema virðulegi forseti, þó svo að virðulegi forseti sem nú er í stólnum sé oft svo skynsöm að það er aldrei að vita hvenær hv. þm. Þuríður Backman, virðulegi forseti, fari að koma yfir til okkar í stjórnarandstöðunni, (Gripið fram í.) en þetta er nú bara sagt í framhjáhlaupi af því að ég er svo oft ánægður með hv. þm. Þuríði Backman sem er núna virðulegur forseti. En hér er enginn stjórnarliði í salnum og það er algjörlega ljóst og hefur komið alveg skýrt fram, ekki af því við séum búin að ræða þetta mjög lengi, við erum búin að ræða þetta mjög stutt, það var bara skýrt alveg frá fyrstu mínútu að stjórnarliðar ætluðu ekki að taka þátt í umræðunni, þeir ætluðu eingöngu, virðulegi forseti, að fara eftir þeirri línu sem spunameistarar ríkisstjórnarinnar lögðu upp með, sem var sú: Treystum á það að fólk, að þjóðin sé búin að missa áhuga á þessu, að þjóðin muni ekki grípa til varna og þá getum við lætt þessu máli í gegn, það er svo mikilvægt af því að okkur langar svo í Evrópusambandið. Þannig stendur þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég á mjög marga vini, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, sem eru mjög hlynntir því að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu og eru hlynntir því að við förum í Evrópusambandið, t.d. hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. (ÓN: Mjög áhugasamur.) Ja, hann er alla vega áhugasamur en kannski ekki um þetta, virðulegi forseti. Það er ekki hægt að senda þessu fólki eða fólki almennt sem vill að Ísland skoði það að ganga inn í Evrópusambandið, verri sendingu en þá hvernig þessi ríkisstjórn heldur á málinu. Að Samfylkingin skuli sýna forgangsröðun sína í verki með þeim hætti að bara sé reynt að afgreiða Icesave-málið, og spuninn settur af stað að fólk sé búið að fá nóg af þessu, bara með einhverjum hætti til að Ísland geti gengið í Evrópusambandið. Það eru ekki góð skilaboð fyrir það fólk sem er því fylgjandi að fara inn í Evrópusambandið.

Nú, virðulegi forseti, fór eini stjórnarliðinn sem hefur sést hér í mjög langan tíma aftur fram og var tími stjórnarliðans í salnum 30 sekúndur. (REÁ: Þú fórst að tala illa um Evrópusambandið.) Já, og hér er kallað fram í að ég geti sjálfum mér um kennt því að ég tali illa um Evrópusambandið. En, virðulegi forseti, það er ekki alveg rétt, ég var í rauninni að gagnrýna Samfylkinguna. Það er alveg ljóst og öllum ljóst að Evrópusambandið fylgir eftir sínum hagsmunum og þetta er bara hörð utanríkispólitík. Þeir halda utan um sína hagsmuni, en virðulegi forseti, við héldum ekki utan um okkar.

Enn og aftur er því algjörlega ósvarað af hverju forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu þjóðinni ósatt þegar við gengum frá þessu máli í haust. Það verður ekki túlkað öðruvísi. Sögðu þeir ósatt af því að þeir vissu ekki betur eftir allan þennan tíma eða sögðu þeir ósatt vegna þess að þeir treystu því að hægt væri að leysa þetta mál með einhverjum hætti af því að þjóðin væri búin að fá nóg af því?

Nú er ekkert sjálfgefið, virðulegi forseti, að þjóðin láti fara svona með sig þrátt fyrir að gengið hafi á ýmsu, við öll farin að hlakka til jólanna og þetta er þannig tími, það er bara ekkert sjálfgefið. Hópur fólks er búinn að berjast hetjulegri baráttu í þessu máli alveg frá fyrstu mínútu. Ég held við getum öll verið sammála um að við stöndum í mikilli þakkarskuld við Indefence og þeir eru núna að safna undirskriftum þar sem þeir ætla að skora á forseta lýðveldisins að skrifa ekki undir lögin. Af hverju skyldi þessi hópur gera það? Meðal annars vegna þess væntanlega, án þess ég þekki það nákvæmlega, ég dreg þá ályktun, að forseti lýðveldisins sagði skýrt að ef þessir fyrirvarar væru ekki til staðar mundi hann ekki skrifa undir lögin. Þetta sagði forseti lýðveldisins þegar gengið var frá þessu máli í haust eða síðsumars.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki annað en forseti lýðveldisins sé sjálfum sér samkvæmur, ég ætla forsetanum ekki annað. Og það liggur alveg fyrir að fyrirvararnir sem hann vísaði til við undirskrift sína síðast, eru farnir út. Þeir eru farnir út, svo einfalt er það mál. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að forseti beiti sér með þessum hætti eins og hann hefur gert einu sinni áður, en það breytir ekki því að það er nokkuð sem sá forseti sem nú er hefur lagt upp með og ég á ekki von á öðru en að hann verði algjörlega sjálfum sér samkvæmur hvað þetta mál varðar.

Stóra málið er það að enginn hefur fært rök fyrir því eða komið og beðist afsökunar á því að hafa sagt ósagt eða ekki vitað betur þegar við gengum frá þessu í sumar, enginn ráðherra, enginn forustumaður stjórnarliðsins. Hér var sagt, virðulegi forseti, að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri um að kenna, að það væri ekki lengur að við þyrftum að klára Icesave-málið á forsendum Breta og Hollendinga og Evrópusambandsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að koma fram og segja skýrt að þetta sé ekki rétt. Það er búið að segja skýrt að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi á röngu að standa. Það eitt og sér ætti að vera nóg til þess, ef menn höfðu fengið þessa vitlausu skilaboð áður, að ríkisstjórnin segi: Gott og vel. Við þurfum ekki að flýta okkur lengur, við höfum nógan tíma til að fara yfir þetta. Nei, virðulegi forseti, það er ekki gert.

Nú treysta stjórnarliðar því að stjórnarandstæðingar ætli ekki að gæta hagsmuna þingsins og þeir treysta því, virðulegi forseti, að stjórnarliðið muni gefast upp í þessari umræðu. Þess vegna er engin stjórnarliði hérna, enginn. Þeir ætla ekki að taka neinn þátt í umræðunni. Þeir hafa komið hér aðeins inn þegar vakin hefur verið athygli á því að þeir hafi ekki verið í salnum mjög lengi, þegar vakin hefur verið athygli á því að þeir hafa einungis talað sem nemur nokkrum mínútum í þessu mikilvæga stóra hagsmunamáli, og þá hafa þeir aðeins hlaupið til. En það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að nú vonast menn bara til þess að hægt sé setja einhvern málþófsstimpil á umræðuna og gera það ótrúverðugt að menn reyni að gæta hagsmuna þjóðarinnar í þessu máli. Það er bara línan.

Virðulegi forseti. Ég er með skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar: Hún getur bara gleymt þessu, þessi áætlun þeirra mun ekki ganga upp. Það er nefnilega svo að við sem höfum verið svo lánsöm að vera kjörin á Alþingi Íslendinga, ég held að ekkert okkar, a.m.k. ekki þeir sem eru í stjórnarandstöðunni, vilji lifa með því að hafa ekki gert allt sem við gátum til að koma í veg fyrir þetta stórslys. Við lögðum öll gríðarlega mikið á okkur í sumar til að ganga þannig frá málinu að við gætum búið börnum okkar glæsta framtíð hér. Þetta snerist um það, ef eitthvað mál snýst um framtíðina, um lífskjör og tækifæri Íslendinga, er það þetta mál. Við unnum nótt sem nýtan dag við að ganga frá því, þannig gengum við frá því. Enginn náði málinu fram eins og hann vildi, en svo sannarlega unnu menn það með þeim hætti að hægt væri að ná sem bestri sátt og forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu að þetta væri bara mjög gott, þetta væri innan ramma samningsins. Með öðrum orðum, menn þyrftu ekki að hafa meiri áhyggjur af þessu.

Því er algjörlega óskiljanlegt af hverju málið er komið aftur. Og þó, virðulegi forseti, kannski er það ekki óskiljanlegt, kannski er öllum að verða ljóst að hér eru hagsmunir Samfylkingarinnar, að við eigum að ganga inn í Evrópusambandið sama hvað það kostar, settir ofar öllu. Það er ekki trúverðugt, virðulegi forseti, þegar hæstv. utanríkisráðherra, sem er meðlimur í breska Verkamannaflokknum og borgar þar árgjöld, kemur og segir að stjórnarandstaðan haldi fjárlögum í gíslingu. Það er ekki trúverðugt. Margoft hefur verið sagt og margoft hefur því verið lýst yfir að menn séu algjörlega til í að víkja þessu máli frá til að ganga frá öðrum, og ekki bara sagt, við höfum flutt tillögu, dagskrártillögu um það. Og hverjir skyldu hafa fellt það, hverjir felldu það að fjáraukalög kæmu á dagskrá? (SER: Sjónarspil.) Hverjir felldu það, virðulegi forseti, að ofurskattarnir kæmu á dagskrá, ofurskattar ríkisstjórnarinnar?

Virðulegi forseti. Það eru þeir sem hlaupa hér frammi á göngum og þora ekki að koma inn í salinn. Það voru stjórnarliðar, það voru stjórnarliðar ríkisstjórnarinnar sem felldu það að þeirra eigin fjáraukalög kæmu fram, þeir felldu það að ofurskattafrumvörpin þeirra kæmu fram. En það var tillaga frá stjórnarandstöðunni, virðulegi forseti, að menn skyldu ræða þau mál vegna þess að öllum er ljóst að það eru engin efnisleg rök fyrir því að keyra þetta Icesave-mál í gegn nema ef vera skyldi að menn vilji líta á það sem efnisleg rök að keyra okkur í gegnum inn í Evrópusambandið, nákvæmlega sama hvað það kostar.

Þetta mál er af þeirri stærðargráðu að sagnfræðingar framtíðarinnar munu skoða það, þeir munu skoða hvað þeir hv. þingmenn sem hér sátu sögðu og þeir munu skoða hvað þeir gerðu, vegna þess að þetta mál er af þeirri stærðargráðu að það snertir framtíð þjóðarinnar. Ég hvet hv. stjórnarliða, ef einhver er enn þá eða ef þeir voru einhvern tímann að taka þátt eða fylgjast með umræðunni, að líta aðeins til eigin samvisku og hugsa hvort þeir séu að gera rétt. Eins og ég nefndi, virðulegi forseti, deilum við um margt og okkur finnst öll mál og kannski flest stór, við getum haft sterkar skoðanir á því hvort byggja eigi hús, hvort breyta eigi lögum með einum eða öðrum hætti, allt skiptir þetta máli. En þetta mál er af þeirri stærðargráðu að börn okkar og barnabörn munu finna beint fyrir því hvernig við afgreiðum það, virðulegi forseti.

Hv. stjórnarliðar þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar í þessu stóra máli hvort það sé rétt að taka línuna frá spunameisturum ríkisstjórnarinnar og klára málið sama hvað það kostar, vegna þess að nákvæmlega á þessum tímapunkti gæti hugsanlega verið kominn einhver leiði í umræðu um þetta mál, að nákvæmlega á þessum tímapunkti vilji fjölmiðlar kannski fara að fjalla um eitthvað annað. Hv. stjórnarliðar þurfa að spyrja sig þessarar spurningar. Í framtíðinni verður nöfnum þeirra flett upp. Það verður skoðað hvað þeir gerðu, það verður skoðað hvað þeir sögðu í þessari umræðu. Og það sem er æpandi — og ég sé hér glitta í einn stjórnarliða, hv. þm. Guðbjart Hannesson, sem lýsti því yfir og það væri nú gaman, virðulegi forseti, ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson mundi svara því af hverju hv. þingmaður og forustumenn ríkisstjórnarinnar stóðu hér glaðbeittir og sögðu að þetta væri innan ramma samkomulagsins sem við afgreiddum í sumar. Það væri ágætt að fá svar við því.

Nokkrir hlutir geta komið til greina. Í fyrsta lagi að þeir vissu ekki betur, sem er að vísu mjög sérstakt eftir alla vinnuna sem unnin var í þessu máli. Eða hitt, að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar voru blákalt að segja þjóðinni ósatt. Virðulegi forseti. Það er alltaf mjög alvarlegt að segja ósatt, en að forustumenn þjóðarinnar skuli haga sér með þeim hætti í þessu stóra hagsmunamáli okkar er svo alvarlegt að það varðar alla okkar framtíð.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki farið hér efnislega í mörg atriði þessa samnings. Í örstuttu máli er þetta þannig að við settum í sumar fyrirvara, smíðaða með því markmiði að við gætum lifað með þessu máli. Við sögðum sem svo að úr því að búið væri að skrifa undir þennan samning, væri það hvernig ríkisábyrgðinni skyldi háttað það eina sem þingið gæti ráðið, því að það er deilt um svo margt í þessu, m.a. það hvort það sé raunveruleg ríkisábyrgð á þessu máli. Menn gengu þannig fram að það væri tryggt að framtíðin yrði björt og ef allt færi hér á versta veg, mundi þetta einstaka mál ekki keyra okkur í kaf, ekki keyra íslenska þjóð í kaf. Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, sem höfðu verið mjög tregir í taumi hvað þetta varðar og ég ætla ekki að rifja alla þá sögu upp, virðulegi forseti, komu hér og sögðu að þetta væri innan ramma samkomulagsins. Síðan koma þeir skyndilega, og augljóslega búnir að fara yfir þetta með forusturíkjum Evrópusambandsins, og upplýsa okkur um að þeir séu komnir með nýtt samkomulag og það er skemmst frá því að segja að þar eru fyrirvararnir farnir út.

Stóru fyrirvararnir eru þeir að gert var ráð fyrir því — ekki gert ráð fyrir, í þeim lögum sem gilda um þetta mál fellur ríkisábyrgðin úr gildi 2024. Það er tryggt í þeim lögum sem gilda um þetta mál að við greiðum aldrei meira en 6% af hagvexti. Ýmsir aðilar úti í hinum stóra heimi sögðu að þetta væri skynsamlegt og ætti að vera fyrirmynd, fordæmi annars staðar, vegna þess að hér væri verið að ganga frá samningum með þeim hætti að það mun ekki kollkeyra viðkomandi þjóð sem skuldar mikið.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að þingmenn þjóðarinnar hafi sýnt mikið langlundargeð, hafi sýnt mikla sanngirni svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og mætti færa rök fyrir því að þeir hafi sýnt of mikla sanngirni, það var gengið þannig frá málinu. Það getur enginn haldið því fram að við höfum sýnt óbilgirni eða ósanngirni gagnvart þessum vinaþjóðum okkar í Evrópusambandinu. Þvert á móti gengum við þannig frá málinu að þeir hefðu getað haldið andlitinu pólitískt hver á sínum heimaslóðum. Reyndar gæti ríkisstjórn Íslands líka haldið andlitinu pólitískt. Þannig var gengið frá þessu máli og það eru þau lög sem eru í gildi. Það er nákvæmlega engin ástæða til að breyta þeim lögum og engin haldbær rök hafa komið fyrir því af hverju við ættum að breyta þeim. Hins vegar er okkar öllum að verða ljóst að ástæðan fyrir því að menn vilja breyta lögunum er sú að Samfylkingin með Vinstri græna í eftirdragi mun vera tilbúin til að fórna þessum gríðarlegu hagsmunum komandi kynslóða fyrir það að ganga í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það er sorglegur vitnisburður um þessa tvo flokka.