138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðuna. Hann talaði m.a. um hina sérstöku tilvísun forseta í fyrirvara Alþingis þegar hann ákvað að skrifa undir lögin um Icesave. Ég hef sjálf verið að velta því fyrir mér hvað forsetinn geri. Þessi tilvísun var mjög sérstök. Það er ekki algengt að forsetar gefi út yfirlýsingu eða tilvísun áður en þeir ákveða að undirrita og staðfesta lög. Eina tilfellið sem ég þekki til var þegar fyrrverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, ákvað að gefa út sérstaka yfirlýsingu þegar hún skrifaði undir EES-samninginn. Það var ákvörðun sem var henni mjög erfið þar sem hún taldi að verið væri að framselja hluta af fullveldi Íslands. Leiða má rök að því að hugsun forseta hafi verið sambærileg við þessa áritun, hann telur málið svo stórt og svo alvarlegt að það sé nauðsynlegt fyrir hann að útskýra af hverju hann ákveður að staðfesta lögin og hvaða forsendur eru fyrir því að hann er tilbúinn að staðfesta lögin en ekki vísa þeim áfram til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kallað hafði verið eftir.

Eftir því sem forsetinn segir í yfirlýsingunni virðast fyrirvararnir vera grunnforsendan fyrir því að hann staðfestir þessi lög. Getur verið að það sé ástæðan fyrir því að nú, þegar verið er að kynna breytingar á lögunum og viðaukasamninga, haldi ríkisstjórnin svona fast við það að ekki sé um að ræða neina breytingu á fyrirvörunum, að fyrirvararnir séu enn til staðar og jafngóðir og þeir voru þegar þeir voru samþykktir af Alþingi Íslendinga í sumar?