138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sýnir enn á ný hversu flókið þetta mál er. Ég tek undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, ég hef ekki heyrt nokkurn sérfræðing, eða nokkurn almennan borgara, hvort sem er innan þings eða utan, halda því fram að fyrirvararnir hafi ekki breyst. Ef þetta mál fer í gegnum þingið án breytinga, og fer eins og fjárlaganefnd leggur til, telur hv. þingmaður þá að forseti muni skrifa undir og staðfesta lögin eða getur verið að þetta verði fyrsta málið sem verður lagt í dóm íslensku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Nú er til umfjöllunar á þinginu frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég veit ekki betur en það hafi verið hugsun ríkisstjórnarinnar að það mál sem ætti að fara fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu væri samningurinn við ESB. Telur þingmaðurinn miklar líkur á því að þetta verði kannski fyrsta málið sem vísað verði til þjóðarinnar til að kjósa um, hvort við séum tilbúin að staðfesta þessar breytingar eða ekki eða hvort við sem þjóð viljum láta lögin, sem voru barin saman daga og nætur nú í sumar, standa?

Það er mjög áhættusamt hvernig forsetinn orðaði þetta. Hann segir að fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti taki að hans mati mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð. Telur þingmaðurinn að þeir nýju fyrirvarar sem búið er að setja inn í viðaukasamninga uppfylli þessi skilyrði hjá forsetanum?