138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins meira um þessa fyrirvara. Í sumar var ég mjög hrifin af þeim og ekki bara fyrir Ísland — þetta skar okkur úr snörunni án þess að losa okkur algerlega undan ábyrgðinni. Við bárum enn skyldur og ætluðum að gera eins vel og við gætum.

Það var hins vegar fordæmisgildi þessara fyrirvara, sem þingmaðurinn minntist á í ræðu sinni, sem ég var mjög hrifin af, hvort þeir gætu orðið einhvers konar fyrirmynd að lánasamningum þjóða sem búið hafa við stríðsástand, tapað öllu sínu og eiga enga von út úr aðstæðum sínum. Það eru einmitt þær aðstæður sem ég er svo hrædd um að við munum lenda í ef þetta verður samþykkt óbreytt.

Til að koma þessum fyrirvörum í gegn hefði ríkisstjórnin klárlega þurft að kynna þá betur og aðstæður okkar og hún hefði þurft að gera það af öllum sínum sannfæringarkrafti. Ég tel, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hafi ekki haft trú á fyrirvörunum og trú á verkefninu. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um það eða hvaða skoðun hann hafi á því máli. Hafði ríkisstjórnin trú á þessum fyrirvörum, að þeir yrðu einhvern tíma samþykktir? Hafði hún trú á verkefninu í heild sinni?