138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Já, þau voru um margt athyglisverð, þessi köll hér á milli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Það hefði samt verið æskilegra að hæstv. fjármálaráðherra hefði komið í andsvör.

Það er því miður þannig, virðulegi forseti, að við komumst einhvern veginn ekki áfram með þetta mál öðruvísi en að detta í raun og veru alltaf ofan í þessi pólitísku hjólför. Það er mjög slæmt vegna þess að þetta er mál af þeirri stærðargráðu að við getum ekki breytt einhverju eftir stuttan tíma ef okkur líst ekki á þetta.

Ég vil þó, virðulegi forseti og með þínu leyfi, fá að vitna örlítið í grein sem Eva Joly skrifaði í ágústmánuði. Það hefur komið mjög mikil gagnrýni á það hvernig haldið hefur verið á málum, að kynna þetta mál okkar og verja okkur á erlendri grundu.

Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna hér í grein Evu Joly:

„Mörgum þjóðhöfðingjum og ríkisstjórnum, allt frá G8 til G20, verður gjarna tíðrætt um að héðan í frá verði ekkert eins og það var áður. Heimurinn hafi breyst, kreppan hafi jafnvel gerbreytt honum; afstaða okkar og vinnubrögð varðandi lagaumhverfi fjármálastarfsemi, alþjóðasamskipti eða þróunarsamvinnu verði því, að þeirra sögn, einnig að þróast. En því miður ganga fjölmörg dæmi þvert gegn þessum fagurgala þeirra. Staða Íslands nú í kjölfar bankahrunsins og þjóðnýtingar þriggja stærstu bankanna þar (Kaupþings, Landsbankans og Glitnis) er sennilega eitt skýrasta dæmið um þetta. Ísland, þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða.“

Ég vek athygli á þessu sem Eva Joly segir hér: ræður alls ekki við að greiða.

Síðan kemur hún inn á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá vitna ég aftur til greinar hennar:

„Tökum fyrst kröfur Bretlands og Hollands. Hrun íslensku bankanna snertir þessi lönd beint, enda tóku þau dótturfyrirtækjum bankanna og útibúum opnum örmum þrátt fyrir að yfirvöld þessara sömu landa hafi að einhverju leyti verið vöruð við þeirri hættu sem vofði yfir bönkunum. Nú krefjast þau þess að Ísland greiði þeim himinháar upphæðir (Bretlandi meira en 2,7 milljarða evra og Hollandi meira en 1,3 milljarða evra), og það á 5,5% vöxtum. Löndin telja að Íslandi beri að gangast í ábyrgð fyrir innlán í Icesave, netbankaútibúi Landsbankans sem bauð mun hærri vexti á innlánum en keppinautarnir. Það voru Hollendingar og Bretar sem ákváðu einhliða að upphæð innstæðutryggingarinnar ætti að vera ekki aðeins 20.000 evrur fyrir hvern reikning, rétt eins og kveðið var á um í evrópskum og íslenskum lögum — nokkuð sem þegar var ógerlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina að standa við, en hún hafði tilkynnt mjög fljótlega eftir að bankarnir voru þjóðnýttir að aðeins væri hægt að ábyrgjast innlán á Íslandi — heldur að upphæð 50.000 til 100.000 evrur, jafnvel hærri. Raunar var gripið til hneykslanlegra þvingunarráðstafana vegna þessa. Bretland greip þannig strax í októberbyrjun til afar róttækra aðgerða: frysti innstæður á reikningum Landsbankans og einnig Kaupþings, sem þó hafði nákvæmlega ekkert með Icesave að gera, og beitti til þess lögum um baráttu gegn hryðjuverkum. Með þessu setti Bretland Íslendinga, bandamenn sína í NATO, í sama flokk og hryðjuverkasamtök á borð við al-Qaeda ... Upp frá þessu virðist Bretland hafa lagst með öllum sínum þunga gegn því að alþjóðasamfélagið grípi til nokkurra ráðstafana sem komið geta Íslandi að gagni fyrr en það hefur haft sitt fram. Gordon Brown gaf þannig í skyn í breska þinginu að hann „ynni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“ til að ná fram kröfum sínum gagnvart Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti því að fresta því að lána Íslandi og setti afar hörð skilyrði fyrir veitingu lánsins. Það á við um þau markmið að ná jafnvægi í fjárlögum á Íslandi í síðasta lagi árið 2013, markmið sem ekki er gerlegt að ná, en kemur engu að síður til með að leiða til gríðarlegs niðurskurðar í grundvallarmálaflokkum á borð við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, o.s.frv. Afstaða Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja var lítið skárri. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók strax í nóvember skýra afstöðu með Bretlandi þegar forseti hennar lét að því liggja að aðstoð mundi ekki berast frá Evrópu meðan Icesavemálið væri enn ófrágengið; raunar má segja að Barroso, sem þá var allur með hugann við eigin kosningabaráttu og dauðhræddur við að styggja helstu stuðningsmenn sína, Breta, hafi þá eins og fyrri daginn algerlega verið búinn að missa stjórn á atburðarásinni. Sama má segja um Norðurlöndin, sem þó eru ötulir talsmenn alþjóðasamstöðu, en afreka það nú helst að bregðast ekkert við þeirri kúgun sem Ísland er beitt — nokkuð sem dregur úr trú manna á raunverulegan vilja þeirra til þess að veita Íslandi stuðning.

Brown heldur því ranglega fram að hann og ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á þessu máli. Brown ber siðferðilega ábyrgð þar sem hann var fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu svo mjög því skipulagi sem nú er komið í þrot. En hann ber líka ábyrgð að því leyti að hann getur ekki skýlt sér á bak við lagalega stöðu Icesave — að það heyri formlega undir íslensk yfirvöld bankamála — og sagt að Bretland hafi hvorki haft tök né lagalega stöðu til að fylgjast með starfsemi þeirra. Hvernig er hægt að ímynda sér að 40 manns í Reykjavík hafi getað haft virkt eftirlit með starfsemi banka í hjarta fjármálahverfisins í Lundúnum? Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafnmiklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti — nokkuð sem raunar kemur ekki mikið á óvart þegar „frammistaða“ annarra enskra banka í bankakreppunni er skoðuð, banka sem voru alls ótengdir Íslandi ... Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafnmikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?“

Síðan kemur hér:

„Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum. Samningurinn um Icesave, sem Alþingi greiðir atkvæði um á næstunni, mundi þýða aukna skuldsetningu Íslands. Hlutfallslega er um að ræða upphæð sem er sambærileg við það að Bretar tækju á sig 700 milljarða sterlingspunda skuld eða að Bandaríkjamenn tæku á sig 5.600 milljarða dollara skuld. Það er heldur ekki raunhæft að Ísland geti skilað hallalausum fjárlögum innan fimm ára á sama tíma og fjárlagahalli flestra ríkja eykst gríðarlega. Þar fara fremst í flokki stórveldi heimsins, ekki síst Bretland og Bandaríkin. Ef Evrópa og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snúa ekki við blaðinu kann að vera að þau vinni sannkallað afrek: dragi land þar sem þjóðartekjur á hvern íbúa hafa verið með þeim hæstu í heimi niður á stig þeirra allra fátækustu ...“

Virðulegi forseti. Ég vek sérstaklega athygli á þessu sem Eva Joly bendir hér á. Ef við höldum áfram eins og við erum að gera hér núna verðum við meðal fátækustu ríkja heims. Það er akkúrat það, virðulegi forseti, sem Eva Joly skrifar og þá geta menn ekki kallað það öllum illum nöfnum því að þessi ágæta kona nýtur mikils trausts hér á landi og menn hljóta að taka orð hennar alvarlega þó að þeir vilji oft og tíðum gera lítið úr orðum annarra.

Virðulegi forseti. Ég skora á hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að kynna sér málið mjög, ekki veitir af að hvetja hæstv. ráðherra til þess því að samkvæmt því sem þingflokksformaður Vinstri grænna, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sagði í sjónvarpsviðtali hafa margir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni ekki lesið samninginn. Þeir lásu ekki samninginn áður en þeir sögðust vera tilbúnir að samþykkja hann, hún sagði það orðrétt. Ég dreg orð hennar ekkert í efa, virðulegi forseti, vegna þess að hún hefur mjög góðar heimildir innan úr Stjórnarráðinu. Ég ætlast til þess núna að allir hæstv. ráðherrar hafi í það minnsta lesið samninginn, ég geri þá kröfu, (Gripið fram í.) þó að ekki væri nema bara viðaukann við hann af því að hann er ekki það margar línur. (Gripið fram í.) Enda vekur þetta upp spurningar um hvers vegna margir hæstv. ráðherrar hafa ekki tekið þátt í umræðunni. Það hafa mjög fáir þeirra gert, virðulegi forseti.

Ég vil enda á því að segja: Ég ætlast til þess að hæstv. ráðherrar lesi samningana núna.