138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess hve hv. þm. Kristján Þór Júlíusson tjáir sig oft skýrt og skorinort og slær vel frá sér ætti þessi leiði misskilningur ekki að koma upp eins oft og virðist vera. Þar sem ég er ritari Framsóknarflokksins, og ber ábyrgð á innra starfi flokksins og félagaskrá, vil ég þó geta þess að ég kannast ekki við að Daniel Gros sé félagi í Framsóknarflokknum. Það væri hins vegar mjög áhugavert og gott að fá hann í flokkinn, en það var ekki ástæðan fyrir að hann var tilnefndur, ólíkt því sem gerðist í sumum flokkum, í bankaráð Seðlabankans.

Ég hefði áhuga á því að heyra frá þingmanninum — ég veit að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór vel í gegnum vextina og það sem er að gerast þar — hvort ekki væri ástæða til að óska eftir því að á fund nefndarinnar kæmu fulltrúar frá Seðlabankanum, þessir tveir eða þrír einstaklingar sem skrifuðu þetta minnisblað varðandi vextina. Þar sem samninganefndin byggði ákvörðun sína, um að vera með fasta vexti í lánasamningnum, fyrst og fremst á þessu minnisblaði frá Seðlabankanum, spyr ég hvort ekki væri ástæða til að kalla viðkomandi sérfræðinga aftur á fund nefndarinnar og síðan aðra sérfræðinga.

Maður fær það stundum á tilfinninguna að þeir hjá Seðlabankanum séu að vernda einhverja ákveðna hagsmuni miðað við hvernig þeir tjá sig. Það er a.m.k. mín skoðun að þeir hafi verið mjög bjartsýnir varðandi greiðslugetu okkar og hvernig þeir sjá fyrir sér þróunina á því. Þeir virðast geta reiknað sig upp í það að við getum borgað nánast hvað sem er. Þetta er svipað og í fiskeldi, ég þekki það aðeins, það skilar alltaf rosahagnaði í Excel. Það má kannski segja að það eigi líka við um þetta Icesave-mál, (Forseti hringir.) við virðumst alltaf geta reiknað okkur upp í það hvernig við borgum þetta.

En ég vil spyrja, út frá því sem kemur fram í pistlinum hjá hv. þm. Ólöfu Nordal, hvort (Forseti hringir.) þingmaðurinn hafi eitthvað skoðað þetta og hvort ekki sé ástæða til að skoða þessi mál mun betur.