138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að það er mjög mikið eftir í þessari umræðu. Við eigum t.d. eftir, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem höfum haldið hér margar efnismiklar ræður, að sjá hvort ríkisstjórnarflokkarnir eða talsmenn þeirra eiga eftir að svara með einhverjum hætti þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið af okkar hálfu. Ég held því að sú tímaáætlun sem hæstv. forseti var að nefna sé með öllu óraunhæf. Ég vildi spyrja, svo að maður geti áttað sig á því hvernig umræðan á eftir að ganga hér í dag, hvort von sé á öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í hús en hæstv. fjármálaráðherra. Það er ljóst að málið snertir fleiri ráðherra með beinum hætti, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég vildi spyrja hvort hæstv. forseti hefur upplýsingar um það hvort þeirra sé að vænta.