138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessar spurningar. Þingreynsla, já, en þegar ég lít til ráðherraliðsins, hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, er greinilegt að ég er rétt að byrja minn þingferil ef menn líta yfir þann tíma sem þau hafa setið á þingi.

Það verður að segjast eins og er að ég held að menn þurfi að hafa furðulegt hugmyndaflug til að geta sett það fram að sá samningur sem við ræðum nú, að fyrirvararnir í honum séu í rauninni betri en þeir fyrirvarar sem við samþykktum á þinginu í sumar. Ég held að Münchhausen hefði bara verið nokkuð stoltur af svona fullyrðingu og slíkri ævintýramennsku eins og margir stjórnarliðar hafa verið að setja hér fram.

Svo ég svari spurningunum. Nei, ég hef ekki hitt neinn utan þings sem hefur sagt beinlínis að nýju fyrirvararnir væru betri en þeir sem þingið samþykkti í sumar. (PHB: Betri fyrir Breta.) — Já, þeir eru betri fyrir Breta og fyrir Hollendinga en fyrir Ísland. — Nei, þeir eru engan veginn betri, en við förum alltaf út á hálan ís þegar við segjum að ríkisstjórnin hafi verið að gæta hagsmuna annarra en Íslendinga þegar kemur að þessum málum. Þá verða menn viðkvæmir.

Þingræðið. Alþingi er elsta þjóðþing í heimi. Það er alveg ljóst, og þess vegna hef ég aldrei getað skilið af hverju þessi asi er alltaf til staðar, að Hollendingar og Bretar gerðu ráð fyrir að þetta mál ætti að fara til þingsins. Þeir gerðu ráð fyrir því að ríkisábyrgðin yrði samþykkt hér á þingi. Ég trúi því ekki og hef sagt það áður, að Bretar og Hollendingar telji þing Íslendinga vera þannig að það sé bara einhver stimpilstofnun fyrir ríkisstjórnina. Það er ekki svo. Við sýndum það í sumar að við stóðum vaktina og við verðum að standa hana áfram.

Já, ég segi að tíminn hjálpi. Og hvað gerist 30. nóvember? (Forseti hringir.) Bara akkúrat ekki neitt. Til þess eru hagsmunir Breta og Hollendinga of miklir að þetta mál klúðrist.