138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að biðja frú forseta að upplýsa það á eftir úr ræðustól og á þessum fundi hvað hún hyggist fyrir varðandi matarhlé þingmanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi skýrt fram hvað forseti hyggst gera varðandi, svo að ég leyfi mér að segja það, þann sjálfsagða hlut að hér verði gert þó ekki væri nema 20 mínútna hlé til að þingmenn geti sest niður og nært sig, því að við viljum gjarnan fylgjast með umræðunni í þingsal.

Annað, virðulegi forseti, er að benda forseta á að við eigum eftir að setjast niður, og við þurfum að gera það sem allra fyrst, til að fjalla um það hversu lengi við verðum hér í dag. Ég minni forseta á að á morgun er fyrsti sunnudagur í aðventu og mikið um að vera hjá flestum fjölskyldum og öðrum sem huga að þeim degi.