138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fór upp undir liðnum um fundarstjórn forseta áðan, að vísu sat þá einn af varaforsetunum í stóli forseta, og bar upp þá spurningu hvenær ætlunin væri að taka matarhlé. Því miður hafði þáverandi varaforseti engin svör við þeirri spurningu en ég er nokkuð viss um að forseti hins sameinaða Alþingis, forseti allra þingmanna, ætti að geta svarað þessari spurningu.

Ég legg hins vegar áherslu á það, eins og kom fram í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að matarhléið verði jafnframt notað til þess að setjast niður með þingflokksformönnum og ræða hvernig ætlunin er að standa að þingfundi í dag, hvað við megum gera ráð fyrir að vera hérna lengi. Þáverandi varaforseti tiltók að þá væru sjö á mælendaskrá og ég sé ekki betur en nú séu þeir töluvert fleiri. Ég held því að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að gert verði hlé á fundi til þess að hægt sé að halda þennan fund og að við vitum hvernig dagurinn muni verða.