138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þá skýringu sem kom frá hv. þingmanni. Mikilvægt er að lagalegi hlutinn verði skýrður nánar eins og hann er að fara fram á, ég held að það sé alveg ljóst, en miklar efasemdir hafa verið um hann. Ég held að einnig væri ráð að óskað yrði formlega eftir því að skriflegt og vel unnið álit kæmi frá enskum eða breskum sérfræðingi í enskum lögum, þannig að ekkert fari á milli mála, því við höfum séð álit, sem komu hér ekki að frumkvæði stjórnarflokkanna eða ríkisstjórnarinnar heldur að frumkvæði aðila tengdum Indefence og fleirum, við fyrri samninginn eða réttara sagt þann fyrsta — þetta eru nú orðnar nokkuð margar útgáfur — þar sem athygli var vakin á mörgum hættum í samningnum sem gætu leitt til slysa fyrir enskum dómstólum. Ég óttast að verði það ekki gert og botn fenginn í þetta núna geti orðið mjög alvarlegt slys ef við lendum í dómsalnum með þetta.

Við höfum hér fjallað um svarbréf sem Gordon nokkur Brown skrifaði forsætisráðherra, í því bréfi kemur allítarlega og ákveðið fram að hann líti svo á að þetta sé fínt, öll efnisatriði séu komin inn í samning sem hafi lagalegt gildi. Það er sem sagt búið að binda fyrirvara á ríkisábyrgð í samning sem um gilda bresk lög og hann er mjög ánægður með það. Af hverju? Hver gæti verið ástæðan fyrir því að herra Gordon Brown, kúgari númer eitt á Íslandi, skuli vera svona glaður með að þetta skuli vera komið í þetta lagalega form? Getur þingmaðurinn aðeins velt upp hugmyndum sínum um hvað það geti verið.