138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það er margt sem þarf að ræða í þessu máli Þetta er í annað skipti sem ég fer í andsvar við hann og ég ætla nú ekki að bera upp neinn misskilning á ræðu hans, þetta var ágætisræða hjá honum. Hins vegar hefði ég áhuga á að spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti, varðandi Evrópusambandið og aðkomu þess að málinu og hver skoðun þingmannsins er á því hvort það hafi verið einhver aðkoma, hvort hún hafi verið góð og hvort hún hafi verið í samræmi við hin svokölluðu Brussel-viðmið.

Það stendur í 3. lið í Brussel-viðmiðanna, með leyfi forseta:

„Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.“

Nú hefur fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gert alvarlegar athugasemdir við það að þarna hafi ekki, í þeim viðræðum sem fóru fram í sumar á tveim dögum og svo í viðaukasamningnum núna sem virtist hafa farið fram líka á einhverjum örfáum klukkustundum, verið nýtt þetta ákvæði í Brussel-viðmiðunum þar sem menn sættust á ákveðna pólitíska niðurstöðu. Ég velti einmitt fyrir mér hvort það geti verið að eina aðkoma Evrópusambandsins að málinu núna sé þessi áskorun frá Evrópuþinginu sem kom fram á fimmtudaginn þar sem skorað er á Alþingi Íslendinga að afgreiða ríkisábyrgð á Icesave-samningunum við Hollendinga og Breta og verði það ekki gert er hætt við að það hafi áhrif á aðildarumsóknina. Telur þingmaðurinn að Evrópusambandið hafi á einhvern annan máta haft áhrif á það hvernig staðið hefur verið að Icesave-málinu? Og ef þingmaðurinn telur svo vera, á hvern máta telur hann að þau áhrif séu?

Það hefur verið haft eftir fyrrverandi formanni samninganefndarinnar að hann teldi að þessi Brussel-viðmið hefðu ekki getað breytt (Forseti hringir.) neinu um samninginn sem slíkan. Það væri ágætt að heyra skoðun þingmannsins á því hvort hann sé sammála þessu mati fyrrverandi formanns samninganefndarinnar.