138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir andsvarið og svara því skjótt að ég er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið hafi ekki átt nokkra einustu aðild að þeirri lausn sem hér liggur fyrir, því miður, að öðru leyti en því að fyrir milligöngu Frakka í fyrrahaust var gerð þessi málamiðlun sem fólst í hinum svokölluðu Brussel-viðmiðum en íslenskum stjórnvöldum og breskum og hollenskum var ætlað að vinna úr málinu á þeim grunni sem þar greinir, þ.e. í Brussel-viðmiðunum svokölluðu, þessum umsömdu viðmiðum. Þar liggur hundurinn grafinn. Það kallar á mat annars vegar okkar sem þjóðar og hins vegar þeirra í því verki sem fram undan er varðandi samningana og fyrirvararnir sem Alþingi setti voru einfaldlega þannig að það átti að beita samningunum á Brussel-viðmiðin, þ.e. þau áttu að hjálpa Íslendingum til að túlka niðurstöðu samninga en þessu er öfugt farið. Ég vil lesa örfá orð upp úr greinargerðinni með frumvarpinu en þar segir að tekið sé fram í viðaukasamningunum að lánasamningarnir hafi verið gerðir með hliðsjón af Brussel-viðmiðunum en ekki að viðmiðunum verði beitt við túlkun samninganna. Þarna er um að ræða algjöran umsnúning frá lögunum sem Alþingi setti. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir þessu fráviki frá 1. tölul. 2. gr. er sú að ensk lög gilda um samningana og Brussel-viðmiðin voru ekki talin nægilega skýr til að hægt væri beita þeim við að túlka lánasamningana í heild.“

Þarna eru Bretar með öðrum orðum og Hollendingar búnir að fá allt sitt fram og tryggja það að ekki komi til þess að reyni á það að við þurfum að túlka Brussel-viðmiðin. Það er örugglega ástæðan fyrir því hversu (Forseti hringir.) Gordon Brown ánægður þessa dagana með Íslendinga.