138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú fór fram töluverð umræða um fundarstjórn forseta áður en hv. þingmaður Kristján Þór Júlíusson tók til máls. Þá gerðist það að þingmaður hér, hv. þm. Illugi Gunnarsson, hafði óskað eftir að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta. Ég horfði á hvernig hann sló mjög skilmerkilega í borðið þegar hann var að óska eftir að fá að taka til máls, en forseti, forseti alls Alþingis, hunsaði algjörlega beiðni þingmannsins um að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta.

Ég vil líka mótmæla því harðlega, af því að það hafa komið fram fjöldamargar óskir um að það verði skýrt hvernig staðið verður að skipulagi þessa dags, að forseti sá ekki ástæðu til að svara þeim spurningum þingmanna hvernig staðið yrði að því þótt við tölum bara um daginn í dag, við látum okkur náttúrlega ekki dreyma um að fara að ræða hvernig staðið verður að fundarstjórn hér næstu daga.

Ég vil bara ítreka þessar óskir, að við fáum svör við því hvernig staðið verður að fundarstjórn og að málfrelsi þingmanna verði ekki heft svona freklega eins og við sáum hérna.