138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef vissa samúð með hæstv. forseta hvað það varðar að ekki sé hægt að gefa skýr svör á þessari stundu um það hversu lengi fundi verði fram haldið. Ég óska samt eftir því að hæstv. forseti gefi aðeins betri mynd af því hvernig ætlunin er að haga fundarstörfum, hvort við eigum að hætta klukkan þrjú, hvort við eigum að hætta klukkan fimm eða klukkan sjö eða hvort við verðum til miðnættis. Það er alveg ljóst að mikil umræða á eftir að fara fram um þetta mál.

Ég benti á það áðan að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa borið fram fjölmargar spurningar og athugasemdir sem gefa tilefni til svara af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni og annarra stjórnarliða. Það er erfitt að skipuleggja dagskrána fyrr en þeir þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa gefið til kynna hvernig þeir ætla að svara því sem fram er komið. (Forseti hringir.) Ekki er hægt að ljúka umræðunni fyrr en svör hafa komið við þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram á mjög málefnalegum og skýrum forsendum.