138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni áðan að ég hafði kveðið mér hljóðs um fundarstjórn forseta, það er bagalegt þegar forseti missir af því. Ég ætla ekki að það hafi verið viljandi gert en það skiptir máli hvað varðar störf þingsins að menn geti treyst því að þurfa ekki að gera sér sérstakt ferðalag upp að sæti forseta til þess að gera grein fyrir því að þeir vilji taka til máls. Augljóslega má sjá það öngþveiti sem yrði hér á daginn ef það fyrirkomulag yrði tekið upp.

Ég vil ítreka að við viljum gjarnan sem fyrst, helst strax, fá fund formanna þingflokkanna með forseta þannig að við getum tekið ákvörðun um það hvernig við höldum áfram í dag. Ég vil jafnframt segja að það er enginn bragur á því að láta þinghaldið fara fram með þeim hætti að gefa ekki eðlilegt matarhlé og þess háttar. Það gerir það að verkum að þinghaldið tefst (Forseti hringir.) vegna þess að menn gera grein fyrir óánægju sinni og það tekur allt tíma. Við eigum að vinna þetta miklu betur og í meiri sátt (Forseti hringir.) og samlyndi en með þeim hætti sem gert hefur verið.