138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir þær ræður sem hér hafa verið fluttar um það að mikilvægt er fyrir okkur þingmenn að vita hvernig haga á dagskránni fram eftir degi. Vonandi skýrist það hjá þingflokksformönnum og hæstv. forseta þingsins á þeim fundi sem boðaður hefur verið korter yfir þrjú. Þetta er bæði mikilvægt fyrir okkur þingmenn, sem þurfum að skipuleggja vinnu okkar og samrýma það einkalífi, og eins hlýtur það að vera mikilvægt fyrir hæstv. ráðherra, sem hafa lítið sést hér í þingsölum og þyrftu að vera viðstaddir þessa umræðu vegna þess að þeir eru allir með sínum hætti ábyrgðarmenn málsins.

Ríkisstjórn Íslands hafði forgöngu um þetta mál og tók sameiginlegar ákvarðanir um að leggja þetta frumvarp fram til þings (Forseti hringir.) þannig að það er mikilvægt að ráðherrar taki þátt í umræðum og þá ekki síst þeir ráðherrar sem málið snertir (Forseti hringir.) hvað mest eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) og hæstv. utanríkisráðherra.