138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég geri þá ráð fyrir því að fundi verði haldið áfram þrátt fyrir að þingflokksformenn fundi með forseta. Það hlýtur að koma eitthvað út úr þeim fundi. Ég mæli reyndar með því að forseti gefi þingflokksformönnum eitthvað að borða og nýti þá tímann sem þeir funda, a.m.k. finnst mér ekki veita af að t.d. þingflokksformaður okkar sjálfstæðismanna fái sér aðeins matarbita, honum veitir ekki af. Síðan vil ég hins vegar undirstrika að það er enn þá þessi möguleiki, ég fékk ekki svar við þeirri spurningu minni áðan, fyrir forseta til að nýta sér þá heimild sem hann hefur til að breyta dagskránni. Hyggst hann breyta dagskránni og setja þá önnur mál ríkisstjórnarinnar á dagskrá?

Ég undirstrika einnig og hvet forseta til þess sem ég hef gert áður, að forseti veiti fjárlaganefnd þann tíma og það svigrúm, af því að mér sýnist að ekki verði gert hlé á (Forseti hringir.) fundinum, að fjárlaganefnd fái þann tíma sem — hér stendur enn þá ein mínúta.

(Forseti (SVÓ): Forseti tekur fram að klukkan fór ekki af stað þegar hv. þingmaður hóf mál sitt, en ég hygg að sú mínúta sé liðin sem hv. þingmaður hafði til að ræða fundarstjórn forseta.)

Já, ég hygg að kannski séu nokkrar sekúndur eftir, en ég vil engu að síður ítreka að fjárlaganefndin fái þann tíma og það svigrúm sem hún þarf. Ég hvet forseta til að veita henni það svigrúm sem hún þarf til að fara betur yfir málin.