138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum ekki alveg sammála þarna, það er nú svo sem ekki stór meiningarmunur á. En ef maður heldur áfram aðeins í ef-spurningunum, af því þingmaðurinn velti því upp að það væru tveir möguleikar á því hvernig þessu máli gæti lokið, annars vegar ef meiri hlutinn fær sínu fram og hins vegar ef meiri hluti frá því í sumar yrði endurvakinn, þ.e. ef þeim þingmönnum Vinstri grænna sem komu með okkur í stjórnarandstöðunni í að bæta málið í sumar, snerist hugur. Þá er þingmaðurinn greinilega sammála mér að þá væri það leiðin til að fara með þetta fyrir dómstóla. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það er þó betra að láta dæma sig og vera fullviss um að þetta séu þær skuldbindingar sem okkur ber. Það hefur verið eitt af sjónarmiðum okkar sjálfstæðismanna að fá úr því skorið hverjar skuldbindingarnar eru. Við munum aldrei víkjast undan skuldbindingum okkar en við erum bara ekki sannfærð um að þetta séu þær, byggt á málinu öllu.

En segjum að þingmenn stjórnarandstöðunnar komi með okkur aftur, að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sjái nú ljósið á fundi sínum með norskum andstæðingum Evrópusinna og komi til baka og segi: Já, þetta gengur náttúrlega ekki, auðvitað látum við ekki kúga okkur svona. Segjum að það gerist og þetta fari í þann leiðangur þá er ég komin aftur að tengslunum við Evrópusambandsumsóknina. Ef við færum út í dómsferli og það drægist, heldur þingmaðurinn samt sem áður að það hefði ekki nein áhrif á umsókn okkar að Evrópusambandinu? Heldur þingmaðurinn virkilega að Bretar og Hollendingar mundu hleypa okkur inn í Evrópusambandið með þetta óklárað fyrir dómstólum?