138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:44]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Já, virðulegur forseti. Það er gaman að velta öllum þessum ef-spurningum fyrir sér. Ef þetta fer í dómsmál — ég vil reyndar taka það fram af því ég sagði að ef hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sér ljósið á þessum ESB-anstæðingafundi í Noregi, þá hefur sá fundur ekki neitt með þetta mál að gera, af því að … (Gripið fram í: Hvað er þá verið að tala um …?) Ég sé ekki að sá fundur hafi neitt með þetta mál að gera. En færi þetta í dómsmál, ég átta mig nú ekki alveg á því í þessum töluðu orðum hvaða tímafaktor þar væri á ferðinni, hvað það tæki langan tíma, það er kannski dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvaða ferli færi þá í gang.

En varðandi stífleika ef við getum orðað það svo, stífleika Breta sérstaklega, þeir fengu svo reyndar fleiri þjóðir með sér, þá er mjög mikill stífleiki gagnvart því að láta reyna á þessa tilskipun. Okkur finnst hún svo óréttlát af því að maður skilur að það geti verið réttmætt að borga tryggingagjald eða einhverjar greiðslur til þeirra sem tapa peningum ef einn banki fellur en þegar allir bankarnir falla í því samhengi sem þeir gerðu hjá okkur þá er það auðvitað hrópandi óréttlæti af því það — menn geta yfirfært þetta á húsbrunann sem ég fór yfir fyrr í ræðu minni og margir hafa gert hér, þ.e. ef eitt hús brennur þá væri í lagi að borga tryggingarnar en ef öll, hvert einasta hús í landinu brennur, hvað gerum við þá? Það er svolítið í því stærðarsamhengi sem okkur finnst þetta mjög óréttlátt.

En Bretar og Hollendingar, Bretar sérstaklega, vildu ekki láta á þetta reyna og kannski gátu þeir ekki látið á þetta reyna. Ef við setjum okkur í spor þeirra, af því þá var verið að gefa út skilaboð á allt bankakerfið, þá hefði getað komið áhlaup á bankakerfið, það voru því stóru hagsmunirnir í Evrópu. Við megum ekki gleyma því að það eru ekki eingöngu íslenskir hagsmunir í húfi, það eru líka hinir stóru hagsmunir, og við verðum svolítið fórnarlamb í þeim leik.

Þess vegna getur það verið mjög áhugavert fyrir okkur að láta fara fram dómsmál (Forseti hringir.) af því að þá látum við reyna á betur þetta heldur en í því pólitíska samhengi sem við erum eiginlega búin að dæma okkur í að tapa á fyrri stigum, með fyrri afstöðu hér í þinginu.