138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu. Ég er sammála mjög mörgu sem hann sagði. Ég er líka sammála því sem fram kom í orðaskiptum síðustu tveggja þingmanna varðandi afstöðu stjórnarþingmanna í þessu máli. Ég held að okkur beri skylda til þess vegna stærðar þessa máls — þó ekki væri nema vegna þess að barnabörnin okkar kynnu spyrja: Amma, þú varst á þingi þegar Icesave-málið var leyst. Hvað sagðir þú? Það væri pínlegt að maður segði við barnabörnin sín: Æ, veistu, ég hafði bara ekkert um þetta mál að segja.

Í síðasta andsvari var aðeins minnst á Evrópusambandið. Mig langaði til að inna hv. þingmann eftir því hvað hann teldi um tengsl þessara tveggja mála, Evrópusambandsins og Icesave. Mikið hefur verið rætt um það hvort ályktun Evrópusambandsins sé til eða ekki og hvernig beri að túlka hana. Núverandi hæstv. forseti er kannski einna ötulastur í því að halda því fram að Evrópuþingið hafi alls ekki verið að álykta um þetta. En ég hef áður sagt að ég hef beinlínis sjálf orðið vör við það í mínum alþjóðasamskiptum við erlenda þingmenn að þessi mál tengjast óneitanlega. Hollenskir og breskir þingmenn hafa beinlínis sagt mér að þessi mál tengist og að við séum velkomin inn í Evrópusambandið en fyrst þurfi að ganga frá þessu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvert hans álit á því sé. Telur þingmaðurinn að þarna sé um að ræða tengsl? Heldur þingmaðurinn kannski að það sé drifkraftur þessa máls, alla vega af hálfu annars stjórnarflokksins, að klára það til að það grafi ekki undan Evrópusambandsumsókninni?