138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir fyrirspurnirnar og andsvarið. Það er augljóst að ESB og Icesave tengjast. Icesave-reikningarnir eru afleiðing þess að við erum hluti af hinu Evrópska efnahagssvæði, þeir voru löglegir sem slíkir. Tilskipunin um innstæðutryggingarsjóðinn er aftur á móti sá ágreiningur sem uppi er við Evrópska efnahagssambandið eða Evrópusambandið þannig að þau tengsl eru augljós.

Varðandi það að Íslendingar þurfi að greiða kostnaðinn við Icesave-samninginn til að fá aðgöngumiða að Evrópusambandinu verður það æ áleitnari spurning þegar fram líða stundir. Hv. þingmaður vísaði til samþykktar, sem sumir vilja meina að hafi ekki verið samþykkt, á Evrópusambandsþinginu nú fyrir nokkrum dögum. Maður hlýtur því að velta því fyrir sér hvort þar sjáist ekki þessi augljósu tengsl þar sem þess er krafist að Íslendingar gangi að þessu áður en að því kemur að fara í þessar umræður.

Það hefur einnig komið fram frá hæstv. utanríkisráðherra, sem er náttúrlega með forræði í þessu aðildarumsóknarmáli, að það geri ekkert til að seinka þessu ferli, það muni taka mun lengri tíma, og maður veltir því auðvitað fyrir sér hvort þessi tengsl séu til staðar. Við getum staðið hér og spekúlerað í því hvort það sé tilfellið að annar stjórnarflokkurinn — ég býst við að hv. þingmaður hafi átt við Samfylkinguna því að við getum varla búist við því að Vinstri grænir geri það — telji ásættanlegt að taka þetta á sig til að fá aðgöngumiðann í Evrópusambandið. En á meðan þingmenn Samfylkingarinnar koma ekki upp og útskýra mál sitt og þessi tengsl þá eru þetta fyrst og fremst spekúlasjónir milli okkar, þingmanna stjórnarandstöðunnar.