138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég tek undir það að það er verra að þetta séu eintómar getgátur milli okkar. Það stafar af því sem þeir sem fylgjast með umræðunni sjá að hv. stjórnarliðar blanda sér ekki mikið í umræðuna þó það sé óneitanlega ánægjulegt að sjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur komna í salinn. Ég trúi ekki öðru en hún komi hingað og útskýri mál sitt mjög fljótlega einmitt vegna þess að við erum öll að velta því fyrir okkur — og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því — hvað hafi orðið til þess að þau gáfust upp.

Við vorum öll ánægð með það í sumar að þessi samstaða náðist og að við náðum að klára þetta mál í samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er sorglegt, og það hefur komið fram í máli margra þingmanna, að samstaðan sem náðist um að reyna að bæta málið, þegar Alþingi reyndi að draga úr þeim skaða sem orðinn var, skuli ekki vera til staðar.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ríkisstjórnin hafi nýtt það tækifæri til hlítar að ná okkur öllum saman til að kynna afstöðu Íslendinga, til að kynna sjónarmið okkar og berjast fyrir þeim. Ríkisstjórnin er eins og þjálfari í íþróttaliði sem segir við liðið sitt: Við getum ekki unnið. Það þýðir ekkert að reyna þetta, við getum ekki unnið. Af því að allt sem sagt er hér er væntanlega þýtt og sent beint til Bretlands og Hollands veit þjálfari andstæðinganna að þetta lið er búið að gefast upp. Þeir vita það því að þeir geta gert allar þessar kröfur. Hefði ekki verið ráð að setja undir okkur hausinn sem þjóð og berjast í sameiningu fyrir þessu?