138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir þessar vangaveltur og andsvar. Ég er klár á því, ef við lítum til baka og horfum í baksýnisspegilinn, að við hefðum átt með miklu skýrari og öflugri hætti allt frá haustdögum 2008 að standa fast í fæturna og berja fast í borðið. Kannski hafði núverandi hæstv. fjármálaráðherra nokkuð til síns máls þegar hann stóð í pontu í október, nóvember og desember og janúar fyrir ári og hafði býsna hávær orð, mótmæli og jafnvel hróp um það hvernig við ættum að standa að þessu máli. Ég er alveg sannfærður um að ef okkur hefði auðnast að ná samstöðu um það á þeim tíma þá værum við í betri málum núna.

Ég er jafnframt á þeirri skoðun að hefði okkur, undir minnihlutaríkisstjórninni sem tók við í febrúar, auðnast að ná slíkri samstöðu þá værum við líka í betri málum, með betri samning og hefðum hugsanlega getað náð meiri samstöðu meðal þjóðarinnar. Ég er jafnframt á þeirri skoðun að á sumarþinginu — okkur tókst á margan hátt að gera góða hluti í þessu máli þá — hefði líka verið möguleiki að ganga enn lengra og viðurkenna það hreinlega að samningurinn sem var á borð borinn væri ekki aðgengilegur fyrir okkar íslensku þjóð og ná samstöðu bæði í þinginu og meðal þjóðarinnar.

Ég er frekar bjartsýnn maður þannig að ég tel að sá möguleiki sé enn fyrir hendi ef við bara höfum okkur upp úr þessum hjólförum og viðurkennum að við erum hugsanlega að berjast við ofurefli og eina leiðin til að ná einhverjum árangri í því er að safna öllum liðsmönnum landsins saman, hvort sem er inni á þingi eða fyrir utan þingsali, hjá allri þjóðinni, og ná samstöðu um að við látum ekki ganga svona yfir okkur. Þá held ég að við munum ná eyrum þessara stóru og voldugu herra og ná betri árangri en við höfum náð til þessa.