138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu ræðu minni um þetta merkilega mál fjallaði ég um mun á breytilegum og föstum vöxtum og færði rök fyrir því að við hefðum gert mistök þegar við völdum að vera með fasta vexti í staðinn fyrir breytilega. Með tiltölulega vægum forsendum sem voru settar fram í útreikningum var sýnt fram á að munurinn gæti orðið allt að 93 milljarðar. Í þessari ræðu minni langar mig að byrja á því að undirbyggja þessar forsendur með því að rekja aðeins hvað er að gerast í heimshagkerfinu og hvaða afleiðingar þeir atburðir sem nú eru efst á baugi í fjármálaheiminum geta haft á vexti um einhverja framtíð.

Mikill ágreiningur er meðal hagfræðinga og hagspekinga um hvernig þessi kreppa sem við lifum núna muni þróast. Kreppur eru oft nefndar eftir bókstöfum og sagt að þær verði v-laga, u-laga eða w-laga o.s.frv. Prófessor við Háskólann í New York, Nouriel Roubini, hefur sagt að það sé hans einlæga sannfæring að þessi kreppa verði í laginu eins og w, þ.e. fyrst hrynjum við, svo náum við okkur nokkuð á strik, hrynjum svo aftur og munum loks ná okkur á strik. Hann sagði fyrir um atburðina sem gerðust á síðasta ári þegar fjármálakerfi heimsins fór fram á bjargbrúnina, þjóðir heims horfðu í djúpið og sum ríki, sérstaklega okkar ríki, fóru fram af bjargbrúninni. Hann hafði rétt fyrir sér með það. Hann virðist jafnframt hafa rétt fyrir sér með að voveiflegir atburðir væru að gerast í heimshagkerfinu og þeir atburðir eru nú að gerast við Persaflóa. Ég ætla aðeins að rekja það.

Þannig er mál með vexti að fyrirtæki sem heitir Dubai World er staðsett í Dúbaí. Það er gríðarlega mikið fjárfestingarfyrirtæki sem hefur fjárfest mikið í alls konar innviðsverkefnum, hótelum, skemmtigörðum og jafnvel tilbúnum eyjum í Dúbaí. Fyrir þremur dögum síðan tilkynntu forsvarsmenn þess fyrirtækis að þeir mundu ekki borga af lánum næstu sex mánuðina. Þetta kom sem alger sprengja inn á fjármálamarkaðinn á fimmtudaginn og í gær og leiddi til þess að vantrú á fjármálamarkaði jókst gríðarlega. Skuldatryggingarálag á Dúbaí hefur rokið upp á síðustu þremur dögum og er komið upp undir 500. Á Dubai World er það að verða komið upp undir 700 en þetta eru tölur sem hljóma ótrúlega kunnuglega frá því í byrjun október í fyrra á Íslandi. Jafnframt hefur tryggingarálag á löndin í kring hækkað mikið. Þannig hækkaði t.d., eins ótrúlegt og það kann að virðast, tryggingarálag á Abú Dabí upp í 136. Ég segi „eins ótrúlega og það kann að virðast“ vegna þess að auður emírsins í Abú Dabí er mestur allra í heiminum. Fjárfestingarsjóðurinn ADIA hefur yfir 800 milljörðum dollara að ráða og það eru raunverulega einkaauðæfi emírsins í Abú Dabí.

Fyrir þá sem ekki eru kunnugir á þessum slóðum standa Sameinuðu arabísku furstadæmin saman af sjö sjálfstæðum einingum eða ríkjum og Abú Dabí er eitt þeirra. Abú Dabí er talið ráða yfir allt að 10% allrar olíu sem finnst í jörðu í heiminum. Dúbaí er annað furstaríkið þarna. Þar er aftur á móti olían búin og þeir tóku ákvörðun um að byggja frekar upp innviði og byggja á ferðamannaþjónustu. Þeir ætluðu sér að verða nokkurs konar Disneyland heimsins.

Þessir atburðir í Dubai World og Dúbaí hafa leitt til þess að í fjármálakerfi heimsins er núna gríðarlega mikil óvissa. Þannig metur Alþjóðagreiðslubankinn í Basel að áhætta vestrænna banka í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sé í kringum 130 milljarðar dollara og þar af eigi Bretland stærstu áhættuna sem er um 51 milljarður dollara. Þar á eftir koma Bandaríkin með um 13 milljarða dollara. Stærstu lánardrottnar í Dúbaí eru Abu Dhabi Commercial Bank og Emirates-bankinn en þeir eru einmitt staddir eins og nafnið bendir til í Abú Dabí. Það sem er kannski alvarlegra fyrir Evrópu og þá sérstaklega Bretland er að fyrirtæki í Bretlandi eru með mikla áhættu þarna inni, fyrirtæki eins og HSBC, Barkleys, Lloyds-bankinn, Royal Bank of Scotland o.s.frv. Þeir hafa lánað mikla peninga þarna inn og t.d. er HSBC, sem er stærsti skuldarinn, með um 17 milljarða dollara áhættu þarna inni.

Þetta lýsti sér í því að í gær hrundi hlutabréfaverðið í þessum bönkum. Barkleys-bankinn hrapaði um 7% og HSBC um rúm 8%. Þetta hefur gríðarlega miklar afleiðingar fyrir fjármálakerfið í Bretlandi sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Nú keppast spekingar um að spá hvað verður á mánudaginn þegar markaðir opna og hvort Dúbaí muni fara sömu leið og Ísland í fyrra. Í dag hafa komið fréttir af því að talsmaður emírsins í Abú Dabí hafi tilkynnt að þeir muni koma Dubai World til hjálpar. Þetta var í íslenskum fréttum en ef maður les erlenda fréttamiðla er þetta ekki alveg jafn afdráttarlaust. Ástæðan fyrir þessu er sú að mjög skiptar skoðanir eru innan Sameinuðu arabísku furstadæmanna um hvort það eigi yfirleitt að koma Dúbaí til hjálpar.

Ég vil rökstyðja mál mitt aðeins með því að segja frá því að Sameinuðu arabísku furstadæmin eru samansett af sjö furstadæmum þar sem trúmál skipta mismiklu máli. Í minnstu furstadæmunum eru sharia-lög, þ.e. stjórnað er eftir kenningu sem má finna í hinu merka riti Kóraninum, eða túlkun á Kóraninum. Aftur á móti eru t.d. í Dúbaí raunverulega engin höft, meira að segja á okkar mælikvarða eru þar engin eða lítil höft. Fyrir Íslendinga að koma þangað líkist það væntanlega frekar því sem í Biblíunni var kallað Sódóma og Gómorra. Þetta hefur verið þyrnir í augum þeirra sem aðhyllast stranga íslamstrú og í augum margra múslíma er ekki mikil eftirsjá að því að Dúbaí falli. Það skýrir væntanlega af hverju emírinn í Abú Dabí kom Dubai World ekki til hjálpar í síðustu viku áður en fór í óefni vegna þess að ljóst er að það sem gerðist í seinustu viku setti þetta allt í uppnám. Núna herma nýjustu fréttir að menn séu að selja tryggingarálag á Óman og kaupa á Abú Dabí. Það er því alls ekki víst að þessar fréttir sem eru í íslenskum fjölmiðlum séu réttar en það er þá ekki í fyrsta skipti sem hér birtist mistúlkun á því sem gerist úti í hinum stóra heimi.

Sem dæmi um hversu óvænt þetta var allt saman er að í desember í fyrra voru gefnir út 3,5 milljarðar af skuldabréfum í Dúbaí, svokölluð „sukuk“, sem eru bréf sem uppfylla skilyrði íslams. Þessi bréf fóru á 10% yfirverði á mánudaginn síðasta en nú er hægt að kaupa þau á 50% undirverði. Svona hefur trúin á þetta fallið.

Af hverju skyldi ég gera Sameinuðu arabísku furstadæmin að megininntaki ræðu minnar? Jú, vegna þess að ef Dúbaí fellur mun það hafa mikil áhrif á allt fjármálalíf heimsins og seinka þeim bata sem við höfum séð fram á. Það hefur þær afleiðingar að vextir munu verða lágir hér næstu tvö, þrjú ár. Þeir sem hlýddu á ræðu mína í gær muna sjálfsagt eftir því að ein aðalröksemdafærslan sem ég færði fyrir því að það hefði verið rangt af samninganefnd um Icesave-samninginn að fara einkaréttarleið og hafa fasta vexti á lánunum var sem sagt þessar staðreyndir sem ég segja frá nú, að það er allt útlit fyrir lága vexti á næstu árum og stærsti stabbinn af Icesave-skuldinni kemur fyrst, hún safnar hraðast og mestum vöxtum á sig.

Þetta hefur líka aðrar afleiðingar og þær eru að nú er talað um að ef Dúbaí fellur eru tvö ríki sem gætu orðið mjög illa fyrir barðinu á því. Annars vegar er það Bretland vegna þess hve bankakerfið og viðskiptalífið í Bretlandi er háð Sameinuðu arabísku furstadæmunum eins og ég lýsti áðan. Hins vegar er það Grikkland vegna þess að Grikkland er í þeirri stöðu að skuldir eru mjög miklar og mikið ójafnvægi er í kerfinu þar. Haldið er að þetta geti jafnvel ýtt Grikklandi út af borðinu líka. Eflaust kemur Evrópusambandið þessum löndum til hjálpar að einhverju leyti en við gætum aftur á móti séð ástand eins og núna er á Írlandi þar sem ríkið vissulega hangir en hefur orðið fyrir gríðarlegum áföllum. Hagvöxtur og annað slíkt er á mikilli niðurleið og erfitt að sjá fyrir sér hvernig írska hagkerfið mun aðlagast núna í kjölfar kreppunnar.

Það er því mín einlæga trú að þeir atburðir sem við sjáum gerast núna í alþjóðlega fjármálakerfinu muni leiða til lægri vaxta í lengri tíma en við héldum áður. Jafnframt er þetta mjög góð undirbygging fyrir röksemdafærslu prófessorsins Nouriel Roubini — sem hefur stundum verið kallaður „Dr. Doom“ — á því að hérna verði þessi kreppa í laginu eins og w, eins og ég útskýrði í upphafi ræðu minnar. Í mínum huga er því stöðugt betur að koma í ljós hversu röng ákvörðun það var af Icesave-samninganefndinni að velja fasta vexti í staðinn fyrir breytilega vexti og ég tel að það eigi eftir að verða okkur dýrkeypt ef ekki er hægt að snúa ofan því. Nú á eftir að sjá viljann hjá þeim sem hafa með þetta mál að gera, hvort þeir taki mark á varnaðarorðum. Eins og ég sagði í gær í fyrri hluta ræðu minnar er þetta aðeins eitt atriði af mörgum sem við sem stöndum hér klukkutíma eftir klukkutíma og tölum um þetta mál teljum að hafi raðast þannig upp að það sé eiginlega ósvinna ef ekki verður farið í að snúa ofan af þessu máli.

Í gær sagði ég að það væri mín skoðun að við ættum að taka höndum saman um að reyna að ganga frá þessu máli þannig að sem mest tillit væri tekið til þeirrar gagnrýni sem hefur komið upp og að vegna þess hversu gríðarlegir hagsmunir þetta eru fyrir Ísland ættum við að stíga upp úr pólitísku skotgröfunum og reyna að gera okkur öll samábyrg í þessu. Ef við erum ekki öll ábyrg fyrir þessu mun það kalla á gríðarlega mikla sundrungu í framtíðinni. Ef verstu spár rætast er óhætt að segja að þjóðfélagið verði klofið yfir þessu. Mín tillaga er því sú, og ég vil endurtaka hana, að þetta mál verði tekið af dagskrá og sett inn í nefnd og það verði reynt að komast — eða komist réttara sagt, það þarf ekkert að reyna því það er alltaf hægt að komast að samkomulagi — það verði komist að samkomulagi við Breta og Hollendinga um þetta mál þannig að sómi sé að. Í fyrsta lagi að við búum ekki við þá miklu áhættu sem núna er innbyggð í samningana. Í öðru lagi að okkur verði sýnd sú sanngirni sem við eigum tvímælalaust skilið vegna þeirra fordæmalausu atburða sem gerðust hér síðasta haust. Í þriðja lagi — og það má ekki gleyma því, það er saga sem á eftir að segja betur frá — að ábyrgðin er ekki okkar Íslendinga einna. Eftirlitsyfirvöld í Hollandi og Bretlandi bera ábyrgð á þessu dæmi líka og þau þurfa að taka hluta af þeim skelli sem verður vegna þessara blessuðu Icesave-reikninga.