138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:02]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við stæðum frammi fyrir því að þurfa að hefja samningaviðræður upp á nýtt er ljóst að þeir samningar yrðu erfiðari vegna þeirrar óvissu sem ríkir í fjármálakerfi heimsins.

Þegar áfallið varð í fyrra stóðu ríkissjóðir flestra landa nokkuð vel og gátu beitt ríkisfjármálum fyrir sig til að koma hlutunum af stað, fara inn í banka, pumpa þar inn peningum og annað slíkt. En núna eru ríki orðin gríðarlega skuldsett og það er erfitt að sjá fyrir sér hvernig þau geta bætt á sig meiri skuldum ef fjármálakerfið fer aftur af stað. Við settum fyrirvarana í sumar vegna þess að við trúðum því að það væri það sem við gætum sætt okkur við og ég er sammála því að við ættum að halda okkur við þá.