138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni afskaplega fróðlega og áhugaverða greiningu. Ég ætla að byrja á því að bera fram „litla spurningu“. Hann nefndi ábyrgð eftirlitsstofnana í Bretlandi og Hollandi. Mig langar að spyrja: Þarf ekki að bæta við ábyrgð Evrópusambandsins á reglum sem það hafði sett og reyndust vera meingallaðar?

Síðan er það spurningin um Dúbaí. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um hlutföllin á milli Dúbaís og Íslands í grófum dráttum, hvort hann þekki það. Ég er sammála þeirri greiningu hans að þetta muni hafa áhrif á langtímavexti vegna þess að þetta hefur áhrif á áhættufælni. En hins vegar mun feiknalega mikið fé tapast sem ekki var tapað fyrir þremur dögum. Það er hreinlega tekið út úr hagkerfinu og er spurning hvernig það virkar.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann um áhrif þessa á Kínverja, þar er mesta uppsöfnun fjár. Það er ljóst að skuldir allra þjóða í heiminum eru að meðaltali núll þannig að þar er mikil uppsöfnun á fé og þeir hafa gífurlega hagsmuni af því að fé tapist ekki unnvörpum. Mig langar til að vita hvernig hv. þingmaður lítur á það.

Staðan sem komin er upp í Dúbaí sýnir mönnum að Ísland er ekkert einsdæmi. Það er annað sem getur gerst annars staðar. Er ekki á vissan hátt „gott“ fyrir Ísland að vera þá ekki á sakamannabekk heldur sé þetta þróun sem er í gangi víðar og Dúbaí sé einmitt dæmi um það. Er ekki ástæða til þess, vegna fordæmisins í Dúbaí, að semja upp á nýtt og þá um skynsamlegri og lægri vexti sem eru nær raunveruleikanum en þeir „ofursvavarsvextir“ sem við höfum verið að fjalla um.