138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ábyrgð Evrópusambandsins sé mikil í þessu máli en það hefur forðast þá ábyrgð á frekar lítilmannlegan hátt verð ég að segja.

Mig minnir að landsframleiðslan í Dúbaí séu 60 milljarðar dollara og þá mundi íslenska hagkerfið vera einn fjórði af því. En þetta gæti verið röng tala, þetta er bara sú tala sem kemur upp í hugann.

Kínverjar eru með sinn CIC-sjóð sem ræður núna yfir rúmlega 500 milljörðum dollara, sem er mikið til fjárfest í bandarískum ríkisskuldabréfum. Þeir hafa jafnframt verið að kaupa í bönkum. Þeir keyptu í bönkum þegar skellurinn reið yfir í fyrra. Það er ljóst að þeir eru uggandi um stöðu sína, hræddir um að tapa miklu af fjárfestingum sínum á Vesturlöndum.

Spurt var hvort þetta gæti ekki talist gott. Jú, að því leytinu er þetta gott að Ísland er að verða gamlar fréttir. Það hefur enginn sérstaklega mikinn áhuga á Íslandi lengur enda sést það á fréttaflutningi erlendis. Viðhorf manna á fjármálamarkaði gagnvart Íslandi hefur einnig gerbreyst á einu ári, þeir eru farnir að fyrirgefa.