138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. „Enn um sinn“ er enn óútskýrt að því frátöldu að það er vísað í kvöldmatarhlé. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvenær standi til að halda kvöldmatarhlé — forseta, afsakið, það er kannski einhver fyrirboði í þessum ummælum mínum, hver veit. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvenær til standi að halda kvöldmatarhlé sem felur í sér þennan formannafund. Síðan vil ég taka undir með þeim sem hafa talað hér um viðveru og þátttöku hæstvirtra ráðherra í þessari umræðu og það er sannarlega ánægjulegt að sjá hæstv. heilbrigðisráðherra við umræðuna. En ég get þó upplýst að ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekkert sérstaklega skoðanalaus þingmaður að eðlisfari og þess vegna hlakka ég mikið til ef hún vildi vera svo væn að deila áliti sínu og skoðunum á þessu máli vegna þess að samkvæmt mínum útreikningum hefur hún ekki enn tekið til máls um Icesave-málið á þingi.