138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan koma hingað upp til að það sé fært til bókar að við höfum verið í salnum í næstum sjö klukkustundir samfleytt, ég held að það vanti fimm mínútur upp á það, og haldið hér fundi sleitulaust. Ég er ekki viss um að svo sé á venjulegum vinnustöðum að ekki séu gefnar pásur eða matarhlé til að menn geti aðeins endurnýjað sálar- og líkamskraftinn til að geta tekist á við það mjög svo mikilsverða mál sem við erum að fjalla um.

Ég vil jafnframt taka undir það sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að þakka fyrir viðveru manna og það á ekki að skammast út í þá hæstv. ráðherra sem mæta, en það er augljós skortur á því að sjá hæstv. forsætisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í salnum við þessa umræðu og ég ítreka þá aftur að við þingmenn höfum verið hér í sjö klukkustundir samfleytt og ég get ekki séð að ráðherrar ættu ekki að deila þeim kjörum með okkur að sitja hér sleitulaust án matar.