138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var fullvissaður um það í gær að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, frummælandi þessa máls, væri viðstaddur umræðuna í leynum, á dulinn hátt, hann fylgdist með umræðunni. Síðan kom í ljós að þegar ég hélt ræðu mína um áhrif raunvaxta til langs tíma var hann ekki viðstaddur og hlustaði ekki á það. Það er líka talað um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi verið hérna í morgun. Ég veit ekki hvort hann var í salnum, ég man ekki til að hafa séð hann, en mér finnst ekki nóg að menn séu einhvern veginn í leynum. Þeir eiga að vera í umræðunni og taka þátt í henni.

Síðasti ræðumaður kom inn á það að efnahagsástand í heiminum væri afskaplega kvikt, við erum að frétta af Dúbaí og hvaða áhrif efnahagsástand þar hefur á t.d. Icesave-samninginn. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir.