138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Við erum að ræða breytingar á lögum sem samþykkt voru á Alþingi 28. ágúst sl. og eru því þriggja mánaða gömul því að í dag er 28. nóvember. Við erum að ræða breytingu á þriggja mánaða gömlum lögum. Af hverju, frú forseti? Jú, vegna þess að þrátt fyrir þá efnahagslegu og lagalegu fyrirvara sem Alþingi Íslendinga setti með lögunum 28. ágúst og þrátt fyrir ummæli ýmissa hæstv. ráðherra í ríkisstjórn sem töldu þá að fyrirvararnir rúmuðust innan samninganna sem höfðu verið undirritaðir stöndum við hér enn og ræðum nú breytingar á þessum fyrirvörum, jafnt efnahagslegum sem lagalegum. Það hlýtur að vekja furðu að svo skuli vera. Það er enn furðulegra, frú forseti, að þingmenn almennt, stjórnarliðar, skuli ekki nýta tækifærið til að taka til máls í þessu mikilvæga máli með þeim breytingum á þeim fyrirvörum sem Alþingi Íslendinga samdi og samþykkti á sumarþinginu.

Alþingi Íslendinga tók frumvarp ríkisstjórnarinnar, stjórnarfrumvarpið, og gjörbreytti því, að því er Alþingi taldi til hins betra. Nú stöndum við frammi fyrir því að breyta því frumvarpi sem Alþingi taldi að íslenska ríkið gæti hugsanlega staðið við með fyrirvörunum, sérstaklega efnahagslegu fyrirvörunum. Nú stöndum við frammi fyrir því, frú forseti, að breyta þeim á ný. Það er sérkennilegt að hér hafa margir stjórnarliðar talað um og veitt nýjar upplýsingar sem ættu að geta gagnast þjóðinni eða þingmönnum fyrir hönd þjóðarinnar til að skoða frekar hvort og þá hvernig við gætum lagfært það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Því hefur oftar en ekki verið ýtt út af borðinu með því m.a. að segja — já, frú forseti, ég sé að ég hef mismælt mig allhressilega frá upphafi og ávarpað hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sem víkur nú af forsetastóli sem frú og bið ég hv. þingmann afsökunar á því. (Gripið fram í: Þetta er viðvarandi vandamál.) Það gæti orðið viðvarandi vandamál, frú forseti, þar sem forsætisnefnd skekktist þegar hv. þingmaður tók þar sæti við það að hæstv. heilbrigðisráðherra vék úr forsætisnefnd. Fram að því var þetta svo þægilegt fyrir þingmenn, þeir þurftu ekki að líta til forsetans og kanna hvort kynið sæti í stóli.

Margar upplýsingar hafa komið hér fram og þeim hefur oftar en ekki verið ýtt út af borðinu, þá með þeim rökum — eða þeim orðum, ekki með rökum — að ýmsir fræðimenn sem varað hafa við því sem hér stefnir í hafi ekki haft nægilega góðar upplýsingar. Því hefur verið ýtt út af borðinu að við þyrftum kannski að skoða frekar vextina á þessum lánum og hvort hægt væri með einhverjum hætti að lækka þá. Ég vísa hér í Daniel Gros og fleiri. Menn hafa rætt um gengisáhættu vegna þess sem fram undan er verði þetta frumvarp að lögum. Ekkert af þessu, frú forseti, hefur að því er virðist orðið til þess að formaður fjárlaganefndar eða aðrir stjórnarliðar sæju ástæðu til að segja eitt eða neitt um að það þurfi að skoða þetta frekar og taka málið aftur inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. Þeim finnst þetta bara fínt eins og það er. Það er haft eftir hv. formanni fjárlaganefndar að fyrirvörunum verði ekki breytt, þessu frumvarpi verði ekkert breytt. Maður veltir fyrir sér, frú forseti, hvernig formaður fjárlaganefndar getur sagt slíkt þegar málið er enn í þinglegri meðferð, meðan hér koma inn nýjar upplýsingar og þingmenn óska eftir því að þær verði skoðaðar. Maður veltir fyrir sér hvernig einfaldlega er hægt að segja: Nei, við ætlum ekki að breyta þessu, þetta verður svona algjörlega óháð því hvort þær upplýsingar sem fram koma eru til hagsbóta — ekki að ræða þær. Þetta er dapurlegt, frú forseti, og þetta eru dapurleg ummæli fyrir formann hv. fjárlaganefndar og þetta er dapurlegt fyrir stjórnarliða sem áttu hlut að þeim breytingum sem gerðar voru í sumar. Það er dapurlegt fyrir þá að þurfa að kyngja þessu sem við stöndum frammi fyrir hér og nú, afar dapurlegt.

Með þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009 erum við að ræða höfnun af hálfu ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Hollands á Brussel-viðmiðunum frá 14. nóvember 2008 þar sem talið var að við hefðum slegið skjaldborg um endurreisnarmöguleika íslenska hagkerfisins á komandi tíð. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 96/2009 voru viðmiðin sögð vera forsenda fyrir veitingu ríkisábyrgðar, forsenda sem ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Hollands hafa sameinast um að virða að vettugi og bjóða nú Alþingi Íslendinga að gera slíkt hið sama.

Frú forseti. Í viðaukasamningum sem hér liggja fyrir eru hinir efnahagslegu fyrirvarar um greiðsluhámark nánast að engu orðnir. 6% greiðsluþakið sem átti jafnt við um vaxtagreiðslu og greiðslu á höfuðstól er fokið. Verði frumvarpið að lögum skulu vextir alltaf greiddir, óháð efnahagslegu ástandi á Íslandi. Við munum alltaf greiða þá vexti sem búið er að semja um. Hvernig er hægt að semja með þessum hætti fyrir hönd íslenskrar þjóðar? Þar að auki er tímabinding ríkisábyrgðar felld út. Hún er nú ótímabundin.

Íslenska ríkið getur heldur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður þó að þar til bærir úrskurðaraðilar kæmust að niðurstöðu um að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðunum. Þá er búið að afsala sér þeim rétti. Ég spyr enn, frú forseti: Hvernig er hægt að semja í þessa veru? Verði frumvarp þetta að lögum virðist sem við stöndum frammi fyrir atkvæðagreiðslu um þetta að óbreyttu. Taki stjórnarliðar ekki til athugunar neinar þær upplýsingar eða athugasemdir sem fram hafa verið lagðar til úrbóta á þessu frumvarpi stöndum við frammi fyrir því að skuldbindingar íslenska ríkisins eru óljósar, ófyrirsjáanlegar, bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort slíkt standist stjórnarskrá.

Þingmenn hljóta að standa frammi fyrir þeirri siðferðislegu spurningu hvort það sé ásættanlegt fyrir Alþingi Íslendinga að setja slíkar byrðar á íslenska þjóð og samþykkja þessar skuldbindingar, svo óljósar og ófyrirsjáanlegar sem þær eru hvað varðar fjárhæð og tímalengd. Frú forseti. Ég segi nei, það er ekki ásættanlegt að slíkt verði gert.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að framkvæmdarvaldið hefði í tvígang farið gegn löggjafarvaldinu. Það hefur nú undirritað samninga við Breta og Hollendinga sem eru í grundvallarandstöðu við Alþingi og þau lög sem Alþingi samþykkti 28. ágúst. Það er samt enn þá þannig, frú forseti, að samkvæmt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er gert ráð fyrir þrískiptingu valdsins, framkvæmdarvaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi. Það er enn svoleiðis. Það kann að vera að einhverjir hafi hug á því að breyta því en það hefur ekki verið gert. Og það er almennt talið, frú forseti, í íslenskum stjórnskipunarrétti að lögjafinn þurfi ekki að sæta neinum takmörkunum af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er því umhugsunarefni hvernig Alþingi eigi að bregðast við þegar framkvæmdarvaldið gengur fram með þeim hætti sem það gerir í þeim samningum sem hér eru lagðir fyrir með viðaukum og í því frumvarpi sem ríkisstjórnin leggur fyrir sem fer á svig við vilja Alþingis frá 28. ágúst 2009. Það kann að vera að vilji Alþingis hafi breyst og það verður þá að koma í ljós hvort þeir þingmenn sem harðast stóðu gegn frumvarpinu sem lagt var fram á sumarþingi, stjórnarþingmenn sem tóku þátt í því ásamt stjórnarandstöðu að gjörbreyta því frumvarpi sem þá var lagt fram vegna þess að það var talið óásættanlegt, reyna að réttlæta þær breytingar sem hér liggja fyrir og veita þessu frumvarpi brautargengi. Þeir verða að svara því hvort þeir geta hugsað sér það og þeir þurfa fyrst og síðast, frú forseti, að svara sjálfum sér því hvernig fólk skiptir svo gjörsamlega um skoðun á þeim þremur mánuðum sem nú eru liðnir frá því að þetta frumvarp varð að lögum 28. ágúst 2009. Þess vegna erum við nú að fjalla um nýtt frumvarp.

Það er enn frekar umhugsunarefni fyrir Alþingi, löggjafarvaldið, með hvaða hætti framkvæmdarvaldið hefur í þessu frumvarpi ákveðið að setja dómsvaldinu á Íslandi verulegar skorður á grundvelli samninga sem gerðir eru við erlend ríki til lúkningar á umdeildri kröfu í svokölluðu Icesave-máli þegar fyrirmælin til íslenskra dómstóla eru að þeir leiti til erlendra dómstóla og fari að ráðgefandi niðurstöðum þeirra í dómsniðurstöðum sínum. Getur löggjafinn leyft sér að samþykkja og gera að lögum frumvarp sem grípur inn í með þessum hætti? Ég held ekki, frú forseti.

Það er eiginlega dapurlegra en hægt er að koma orðum að að Alþingi Íslendinga hafi ekki tekist að standa saman um þau lög sem samþykkt voru 28. ágúst af stjórnarliðum jafnt sem stjórnarandstöðu þegar talið var að íslenska ríkið gæti staðið undir þeim efnahagslegu fyrirvörum sem þar voru settir.

Það er annað sem veldur líka áhyggjum og kannski furðu vegna þess að í vor og á sumarþingi var því haldið fram að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrðu ekki afhent nema að undangenginni lúkningu þessa máls. Því var jafnframt haldið fram að lán frá Norðurlöndunum yrðu ekki afgreidd nema að undangenginni lúkningu þessa máls. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að þess gerist ekki þörf, ekki þurfi að ljúka þessu máli til að lánin verði afgreidd frá þeim. Norðmenn og Svíar segja líka að þeirra lán verði afgreidd án lúkningar á þessu máli. Þá spyr maður sig hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra segi að það þurfi að ljúka þessu máli fyrir mánaðamótin. Hvað hangir svo á spýtunni að ljúka þurfi þessu máli fyrir mánaðamótin? Það er ósætti í þinginu. En það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður, að mig minnir Ólína Þorvarðardóttir, hv. 7. þm. Norðvest., sagði: Það er meiri hluti í þinginu sem ræður. Það er alltaf þannig. Ef meiri hlutinn hefur ákveðið að veita þessu máli brautargengi í þeirri mynd sem það er gerir meiri hlutinn það.

Meiri hlutinn getur hins vegar ekki komið sér undan því að svara: Af hverju þarf að ljúka þessu máli? Af hverju er ekki hægt að taka til endurskoðunar þá fyrirvara sem hér er óskað eftir að verði samþykktir? Af hverju er ekki hægt að taka þær upplýsingar sem hér liggja fyrir og hafa verið reifaðar í þessari umræðu, 2. umr. um þetta mál, hvað varðar vexti og gengisáhættu, hugsanlega jafnræðisreglu o.fl.? Af hverju er ekki hægt að skoða það, mögulegt brot? Gengur þetta hugsanlega gegn stjórnarskránni? Af hverju er ekki hægt að skoða þetta, kanna og fara ofan í til að finna hugsanlega möguleika til að gera þetta bærilegra fyrir íslenska þjóð um ókomna tíð? Eins og málin liggja fyrir hér og nú eru skuldbindingar íslenska ríkisins óljósar og ófyrirsjáanlegar, bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.

Það er óásættanlegt og eins og þetta frumvarp liggur fyrir, frú forseti, mun ég ekki styðja það.