138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur kærlega fyrir ræðuna. Mér fannst einkar áhugavert að hlusta á þann hluta ræðunnar þar sem hún talaði um mikilvægi stjórnarskrárinnar. Ég veit að hv. þingmanni er líkt og öðrum þingmönnum mjög annt um stjórnarskrána. Hún er sá rammi sem við störfum eftir á þinginu.

Mig langar aðeins til að spyrja þingmanninn hvort hún hafi eitthvað velt fyrir sér áhrifum og afleiðingum af því að hugsanlega verði reynt að hnekkja neyðarlögunum. Það liggur fyrir að nánast alveg frá því að neyðarlögin voru sett er búið að gera ráð fyrir því að látið yrði reyna á lögmæti þeirra. Mál fer fyrst fyrir héraðsdóm fljótlega og þaðan til Hæstaréttar og jafnvel má gera ráð fyrir því að þetta komi hugsanlega fyrir EFTA-dómstólinn og síðan Mannréttindadómstólinn líka. Hefur þingmaðurinn eitthvað skoðað þetta? Ég verð að segja að ég hef saknað þess mjög að þetta virðist nánast ekkert hafa verið skoðað í umfjöllun hvorki efnahags- og skattanefndar né fjárlaganefndar og það var raunar ekki fyrr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom út með sína fyrstu endurskoðun á efnahagsáætluninni sem tölur komu fram um það hver áhrifn gætu orðið fyrir íslenskt þjóðarbú og ríkið ef neyðarlögunum yrði hnekkt. Ég hef miklinn áhuga á að heyra frá þingmanninum hvort þetta sé eitthvað sem þingmaðurinn hefur skoðað og þá hvaða skoðun þingmaðurinn (Forseti hringir.) hefur á þessum þáttum sem varðar þetta Icesave-mál.