138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni, af því að töluvert hefur verið kallað eftir þátttöku minni í þessari umræðu, (Gripið fram í.) tek ég fram að ég hef setið hér í yfir 30 klukkustundir og hlustað á flestar ræður, missti af fjórum í gær vegna þess að ég var á fundi um fiskveiðistjórn en mun gera ráðstafanir til að heyra þær ræður. Ég kem hingað af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir að ég hafi talað um að hér ætti ekki að breyta neinu og það hefði verið lagt upp með það. Ég kannast ekki við að hafa nokkurn tíma sagt það, heldur sagði ég þegar ég tók málið inn í fjárlaganefnd að ég ætlaði að skoða breytingarnar nákvæmlega frá því sem samið var um í lögunum og til þess frumvarps sem núna liggur fyrir. Eftir að hafa kallað til mjög marga aðila og farið ítarlega yfir málið varð niðurstaðan sú að ekki þyrfti að breyta þessu frumvarpi, það væri ásættanlegt þrátt fyrir ýmsar breytingar. Það hefur oft verið vitnað í þær í þessu máli. Ég hef aldrei sagt að það ætti ekki að skoða málið með hugsanlegar breytingar í huga.

Í öðru lagi hefur komið fram í umræðunni að ég hef þegar skrifað fjórum lögfræðingum bréf og óskað álits þeirra á grein Sigurðar Líndals. Ég bætti svo við og óskaði eftir því að skoðuð yrðu einmitt þessi lagalegu atriði sem raunar voru rædd í nefndinni, m.a. við lögfræðinginn og prófessorinn Ragnhildi Helgadóttur varðandi framkvæmdarvald og löggjafarvald og hvort við værum þar að misþyrma einhverju. Svo voru ýmis fleiri atriði sem komu fram. Það er búið að leggja drög að því að þetta verði rætt. Það er auðvitað líka búið að leggja drög að því að við skoðum vextina þrátt fyrir að það sé í raunveruleikanum þannig að í fyrri samningunum hafi íslensk samninganefnd samið um vextina og gat valið á milli breytilegra vaxta og fastra vaxta. Við erum þar þá (Forseti hringir.) að fara aftur á byrjunarreit um mál sem ekki var ágreiningur um við afgreiðslu málsins í sumar .