138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðvest., Guðbjarti Hannessyni, fyrir andsvarið. Ég hef hvorki kvartað yfir viðveru né ekki viðveru hv. þingmanns svo það komi skýrt og klárt fram. Ég fagna því sem hv. þingmaður segir um að bréf hafi verið sent til lögfræðinga til að skoða það álitamál sem Sigurður Líndal hefur varpað fram og ég fagna því enn frekar, frú forseti, að það eigi að kanna hvort framkvæmdarvaldið sé hugsanlega að senda löggjafanum fyrirmæli þrátt fyrir þrískiptingu valdsins, að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, skuli vilja skoða það frekar. Ég tel afar mikilsvert að svo sé, en hv. þingmaður sagði hins vegar að hann teldi þá fyrirvara sem nú eru, þá jafnt efnahagslega sem lagalega, ásættanlega. Í efnahagslegu fyrirvörunum segir að algjörlega óháð því hvernig efnahagsástandi á Íslandi verður háttað eigum við samt að greiða þá vexti sem við stöndum frammi fyrir, 35–40 milljarða á ári hverju, algjörlega óháð því hvernig efnahagsástand þjóðarinnar er. Ég spyr hv. þingmann á móti: Hvernig getur það verið ásættanlegt?