138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að bregðast aðeins við orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þess efnis að þingflokksformaður Framsóknarflokksins hafi ekki óskað eftir að fundurinn yrði færður. Þingmenn verða auðvitað að meta það á hverjum tíma en það sem ég gagnrýndi við stjórn forseta á þinghaldinu var að þingmenn væru settir í þá stöðu að þurfa að velja á milli. Það hefði verið ákaflega einfalt mál að fresta þingfundinum í tíma í gær meðan á þessu stóð.

Varðandi þau orð hv. þingmanns að miðstjórnarfundur sjálfstæðismanna hefði verið í hádeginu og það hefði verið brugðist við því man ég líka til þess að í sumar var flokksstjórnarfundur hjá Vinstri grænum og þá varð samkomulag í þinginu um að ljúka störfum um hádegið til að þeir gætu komist á sinn flokksstjórnarfund á Hvolsvelli. Mér finnst eðlilegt af forseta að taka jafnt tillit til allra flokka, mér finnst líka eðlilegt að taka tillit til þess þegar þingnefndir starfa og tek þar af leiðandi undir orð hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur um Þingvallanefndina (Forseti hringir.) sem fundaði jafnframt í gær á þingfundatíma. Það er erfitt fyrir okkur þingmenn að þurfa að hafna því að mæta á fundi vegna þess að við erum bundnir við störf í þingsalnum.