138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og við höfum kannski heyrt í útvarpsþáttum vilja margir kenna sig við sjöunda sætið í hinum ýmsu kjördæmum.

Ég vildi hins vegar benda á, og það varðar þá fundarstjórn sem hefur verið hérna, að ég man þegar verið var að halda landsstjórnarfund hjá Vinstri grænum einmitt á föstudegi held ég. Þá kom fram að það væri hefð á þinginu að reynt væri að hafa ekki þingfundi þegar svona mikilvægir fundir væru hjá flokkunum og reynt var að hliðra til með það. Enda reyna flokkarnir yfirleitt að skipuleggja þessa fundi á föstudögum eða laugardögum þegar þeir gera ráð fyrir að ekki sé þingfundur. Ég geri ráð fyrir að við framsóknarmenn megum þakka fyrir að við skyldum halda okkar miðstjórnarfund síðasta laugardag því ef hann hefði verið á þessum degi hefðum við væntanlega þurft að aflýsa honum. Þar erum við að tala um 150 manns sem koma víðs vegar að af landinu til að sitja fundi (Forseti hringir.) og ræða stjórnmál. Þetta finnst mér ekki vera góð fundarstjórn, frú forseti.