138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er hjartanlega sammála honum um að þetta mál má ekki snúast um stundarhagsmuni. Hér er um framtíð okkar að tefla hugsanlega til áratuga og hvort þessi ríkisstjórn kemur eða fer skiptir í því samhengi engu máli. Það skiptir þó auðvitað máli fyrir okkur í núinu og þótt ég sé enginn sérstakur aðdáandi þessarar ríkisstjórnar vildi ég ekki sjá hana hrökklast frá út af þessu máli, einfaldlega vegna þess að ég held að það sé óþarfi. Ég held að enginn geri þá kröfu nema hæstv. forsætisráðherra.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort vænta megi liðsstyrks frá t.d. Vinstri grænum get ég upplýst þingmanninn um að ég er ekki meðlimur í Vinstri grænum og veit ekki hvað gengur á í þeim flokki. Þó væri óskandi að einhverjir þingmenn Vinstri grænna kæmu og héldu ræður í þessum ræðustóli. Tveir hv. þingmenn Vinstri grænna skiluðu séráliti í efnahags- og skattanefnd. Ég veit náttúrlega ekki hvað þeir gera í atkvæðagreiðslunni en ég veit hins vegar að þeir eru ekki sáttir við hvernig þetta mál hefur verið höndlað af stjórnarflokkunum.