138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Rétt áðan bar hv. þm. Pétur H. Blöndal fram nokkrar spurningar til hv. þingmanns Hreyfingarinnar, Margrétar Tryggvadóttur, sem sneru annars vegar að andlegri líðan þingmanna og hins vegar hvort það væri álit þingmannsins, þ.e. hennar sjálfrar, að þingmenn væru heiðarlegir. Það stóð ekki á svörunum hjá hv. þingmanni enda hefur hún áður verið óspör á yfirlýsingar um andlega líðan og geðheilsu þingmanna í þessum sal og svaraði því til að hún teldi að þingmönnum liði ekki mjög vel á sálinni og væru óheiðarlegir. Þetta var niðurstaða hennar af spurningum hv. þm. Péturs H. Blöndals. Mér finnst (Gripið fram í: … staðfestingu …) þessar spurningar ekki við hæfi, hvað þá svörin sem við þeim koma.

Ég spyr forseta: Hversu langt er hægt að ganga í spurningum af þessu tagi og hversu langt er hægt að krefja þingmenn um svör við spurningum eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bar upp?