138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hugðist koma upp og ítreka fyrirspurn hv. þm. Birgis Ármannssonar þess efnis hvort forseti gæti gengið eftir því að það lægi fyrir með einhverjum smáfyrirvara hvort við yrðum á kvöldfundi í allt kvöld eða hversu lengi við ættum að vera á fundi þar sem menn þurfa eðlilega að skipuleggja sig. Það er mjög sérkennilegt, ég held ég hafi aldrei upplifað það í nokkurri annarri vinnu, nema hugsanlega að vera á vakt sem dýralæknir, að vita aldrei hvað gerist á næstu mínútu. Í öðrum störfum hefur maður yfirleitt getað vitað það næsta klukkutímann hvað maður væri að gera.

En af því að hv. þm. Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, kom í pontu þá get ég ekki orða bundist ef hann misskilur allt það sem hann heyrir á þann hátt sem hann heyrði, viðræður þessara tveggja ágætu hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Margrétar Tryggvadóttur, þá er ekki nema von að skoðanir hans á Icesave-samningnum séu eins og þær eru.