138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að árétta enn og aftur úr ræðustólnum tilboð okkar stjórnarandstæðinga til stjórnarliða og ríkisstjórnarinnar um framgang mála á Alþingi. Það vill brenna við, og ég hef tekið eftir því í fjölmiðlaumræðu að staðan sé þannig að mati fjölmiðlunga að hér séu mál stopp, við komumst ekki áfram vegna þess að verið sé að ræða Icesave-frumvarpið. Það er fjarri öllu lagi. Við höfum með afgerandi hætti boðið ríkisstjórninni að taka þau mál, sérstaklega þau mál sem snúa að fjárlagafrumvarpinu og ræða þau þannig að hægt sé að senda þau til 1. umr., gera stutt hlé á umræðunni um Icesave-samninginn og Icesave-frumvarpið, ganga frá þeim frumvörpum til nefndar svo hægt sé að vinna þau mál þar og halda síðan áfram með umræðuna svo að engin þau mál sem skipta máli fyrir fjárlagafrumvarpið þurfi að bíða afgreiðslu.