138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það eru mér vissulega vonbrigði að ekki liggi fyrir niðurstaða um fyrirkomulag þingfundar og þinghaldsins hér næstu klukkutímana og næstu daga. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta þar sem ekki virðist hafa náðst nein niðurstaða eða verið gefnar neinar upplýsingar á fundi þingflokksformanna, hvort hæstv. forseti geti alla vega látið okkur vita af því hvort til standi að funda fram yfir miðnætti og fram á sunnudag, sem ég held að sé mjög mikil nýbreytni í þinghaldi. Þar sem frú forseti hafði uppi stór orð þegar hún var kjörin um að gera þennan vinnustað fjölskylduvænan, vildi ég í allri vinsemd benda frú forseta á að það er ekkert sérstaklega fjölskylduvænt að funda á laugardagskvöldi fjarri fjölskyldunni, og sérstaklega þar sem fjölskyldan hefur ekki átt þess kost að taka marga sumarleyfisdaga í sumar eru helgarleyfin afar dýrmæt. Gæti frú forseti upplýst okkur um þetta?