138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hjá forseta okkar allra og jafnframt hjá hv. þingmönnum bæði í þessari umræðu og oft áður, hafa verið uppi hugmyndir um að stefna að fjölskylduvænni vinnustað og það er svolítið sérkennilegt að hugsa til þess á sama tíma (Heilbrrh.: Snúið ykkur að efninu.) og við erum að fjalla um þau sjálfsögðu mannréttindi að vita hversu lengi á hverjum degi maður á að vinna. Ég hafði miklar væntingar til þess og fékk að vita það fyrir kvöldmatarhléið að á fundi með forseta og þingflokksformönnum mundi skýrast hversu lengi væri áætlað að vera fram á kvöldið. Mér þætti þar af leiðandi vænt um og bið forseta á mjög vinsamlegum nótum að upplýsa okkur um það hvort til standi að vera hér í einn klukkutíma, þrjá eða sjö, því að það (Forseti hringir.) er nauðsynlegt fyrir okkur að skipuleggja ekki bara vinnu okkar heldur kannski fjölskyldulíf einnig.