138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er ekki lærður lögfræðingur og get ekki úrskurðað í svona málum. Reyndar hef ég starfað á Alþingi nokkuð lengi og sumir telja það jafnvel vera í ætt við það að vera lögfræðingur. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis á ekki að vera fundur í dag, alls ekki. Það átti að vera fundur í gær en í dag á ekki að vera fundur. Ég get ekki ímyndað mér það, frú forseti, að meiningin sé sú að þá daga sem ekki eiga að vera fundir geti skilyrði verið þrengri og verri fyrir þingmenn, þeir megi ekki borða og það megi þvæla þeim út til miðnættis án þess að spyrja leyfis. (Gripið fram í: Ætlarðu að mótmæla?) Þó að ég sé ekki löglærður, frú forseti, trúi ég þessu ekki. Ég legg til, að frú forseti geri smáhlé í fimm eða tíu mínútur, það skiptir ekki máli í þessari (Gripið fram í: Með þingflokksformönnum.) miklu og löngu umræðu, (Gripið fram í: Forsætisnefnd.) og ræði við forsætisnefnd og starfsmenn þingsins um þetta mál.