138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þarna kom hv. þingmaður við ákaflega viðkvæman streng hjá mér, nú get ég talað í marga klukkutíma. Það er munur á þjóðareðli Íslendinga og allra þjóða í Evrópu varðandi sparnað og ráðdeildarsemi. Það er vegna þess að Íslendingum var í 30 ár, 1950–1980, kerfisbundið kennt að eyða með neikvæðum vöxtum frá Seðlabankanum. En ég ætla ekki að fara nánar út í það, heldur tala rétt aðeins um ummæli fjármálaráðherra Hollands, Wouters Bos, þann 3. mars, löngu áður en menn skrifuðu undir samkomulagið. Þá segir hann: „… because tax payers have never asked for those risks“, þ.e. vegna þess að skattgreiðendur hafa aldrei beðið um þessa áhættu, segir fjármálaráðherra Hollands sem lætur svo íslenska skattgreiðendur borga fyrir þetta sem hann er að tala um. Hann er að tala um innlánstryggingarkerfið. Síðan segir hann:

Spurningin er hvernig við getum náð þessu, fyrst og fremst þurfa evrópskar þjóðir að líta nákvæmlega til þess hvernig þetta innlánstryggingarkerfi er byggt upp. Það var ekki hugsað þannig að það réði við „systematic crisis but with a collapse of a single bank“. Það átti ekki að ráða við kerfisbundna krísu heldur þegar einn og einn banki hryndi.

Þetta segir fjármálaráðherra Hollands þann 3. mars áður en hann samdi við Íslendinga um að láta íslenska skattgreiðendur borga fyrir hrun allra bankanna sem hann sagði einmitt að ætti ekki að gera. Þetta er alveg með ólíkindum, frú forseti, og sýnir að íslenskir samningamenn höfðu ekki einu sinni fyrir því að fara inn á heimasíðu fjármálaráðuneytisins í Hollandi þar sem þessi ræða er talin upp. Þeir hefðu getað haldið þessari ræðu undir nefinu á hollenskum samningamönnum og sagt við þá:

Ykkar eigin fjármálaráðherra hefur sagt að Íslendingar eigi ekki að borga.