138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir athyglisverða ræðu og sérstaklega umfjöllun hans um gildi sparnaðar. Ég eins og eflaust margir aðrir velti því fyrir mér hvernig íslenska þjóðin og fólkið í landinu muni ná endum saman á næstum árum og áratugum ef þessi ólukkans samningur sem kallast Icesave-samkomulagið verður að veruleika í þeirri mynd sem nú lítur út fyrir. Að mati margra okkar mun það þýða gríðarlegar byrðar á þjóðina alla og bent hefur verið á útreikninga um að skattar hátt í 80.000 tekjuskattsgreiðenda fari í að borga af þessum lánum sem á að pína okkur til að taka.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann og spyrja hann í rauninni að því hvort hann telji meiri eða minni líkur á því að þjóðin geti hugað að gildi sparnaðar á næstu árum og sparað peninga í ljósi þess að verið er að leggja sífellt meiri byrðar á fólkið í landinu. Það er verið að hækka skatta, auka gjaldtöku ýmiss konar, óbeint eða beint, og það nýjasta sem við erum með í fanginu í kvöld er þetta ólukkans Icesave-frumvarp sem getur leitt til fleiri hundruð eða þúsund milljarða kr. aukalegra greiðslna frá heimilunum. Sér þingmaðurinn fram á að heimilin geri sparað svo einhverju nemi eða stundað almennilegan reglulegan sparnað á næstu árum?