138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hvernig er hægt að halda áfram með þennan fund í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram? Hvernig getur virðulegum forseta dottið í hug að vanvirða þingmenn og Alþingi Íslendinga með þessum hætti? (Gripið fram í: Farðu á mælendaskrá.) Hvernig getur forseti mögulega haldið þessum fundi áfram (Gripið fram í.) þegar komið hafa fram svo alvarlegar ásakanir án þess að boða til fundar með þeim sem eru vændir um það í þessari umræðu að hafa gefið hæstv. forseta rangar upplýsingar? Það þarf að boða til fundar þar sem farið verður yfir þessi mál og niðurstöðu náð. Ekki er verið að biðja um annað, virðulegur forseti, en að fólk setjist niður og komist að niðurstöðu um þingsköp Alþingis.

Hvernig vinna vinstri menn? Er það í anda forustu þeirra að vanvirða þingið, (Forseti hringir.) vanvirða lögin? Ég þarf ekki að kvarta fyrir því. Ég þarf ekki að passa hann, hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra finnst þetta hlægilegt (Forseti hringir.) og það getur vel verið að uppákomur sem þessar hlægi hann. En mér finnst það háalvarlegt mál (Forseti hringir.) að þær ávirðingar sem hér eru bornar fram skuli ekki vera teknar til greina (Forseti hringir.) og ekki skuli boðað til fundar með formönnum þingflokka (Forseti hringir.) og þeim starfsmönnum þingsins sem gefa hæstv. forseta ráð (Forseti hringir.) í þessum efnum. Það þarf að ná niðurstöðu í þetta mál, (Forseti hringir.) við erum ekki að biðja um annað. Við erum ekki að biðja um annað (Forseti hringir.) en að allt það sem talað hefur verið um, allur sá heiðarleiki sem talað hefur verið um, sé virt.