138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að koma aðeins upp í þessari umræðu og lýsa skoðun minni. Ég tel að sú túlkun sem hæstv. forseti hefur viðhaft á þingskapalögunum standist. Í 10. gr. þingskapalaga er talað sérstaklega um reglulega þingfundi samkvæmt starfsáætlun. Til þessa fundar á laugardegi var boðað í ágætu samkomulagi á milli formanna þingflokka. Vegna þeirra ummæla sem hér eru viðhöfð um það — (Gripið fram í: ... rætt við mig.) hæstv. forseti, væri hægt að fá ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri? Mikið hefur verið kallað eftir því af stjórnarandstöðunni að stjórnarliðar kæmu sjónarmiðum sínum á framfæri og ég mundi gjarnan vilja fá tækifæri til þess.

Hér er sérstaklega talað um reglulega fundi. Að sjálfsögðu gilda þingsköp á óreglulegum fundum en í þessu tilefni er sérstaklega tiltekið hvaða regla skuli gilda og hún miðast við reglulega fundi. Til þessa fundar var boðað sérstaklega á laugardegi og ég lít þess vegna svo á að túlkun hæstv. forseta á þingsköpunum sé rétt. (Gripið fram í: Í samræmi við ...)