138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fundurinn í dag var ekki ákveðinn í samráði við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar. Þeim var tilkynnt um þennan fund, við skulum alveg hafa það á hreinu.

Ég spyr forseta aftur: Hvert leita ég þegar ég tel að forseti sé að brjóta rétti mínum?

Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Ég sé ekki ástæðu til að funda með forseta. Þegar fundurinn sem nú er haldinn er ólöglegur er engin ástæða til að funda. Mér þykir það miður, frú forseti, í ljósi þess að allir þingmenn, eða flestallir, greiddu forseta atkvæði sitt þegar hún var kjörin sem forseti Alþingis í trausti þess að verið væri að virða rétt allra þingmanna og forseti yrði forseti allra þingmanna. Ég hef miklar áhyggjur af því, frú forseti og kæru samþingsmenn, ef við sem erum í stjórnarandstöðu getum ekki treyst forseta Alþingis lengur. Þá er þingið komið í verulega alvarlega stöðu.